Skoraði í sínum fyrsta landsleik

Andri Rúnar skoraði með bakfallsspyrnu eftir hræðileg mistök indónesíska markvarðarins.

Bolvíski knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason skoraði í sínum fyrsta landsleik þegar íslenska karlalandsliðið vann stórsigur á Indónesíu í æfingarleik dag. Leiknum lauk með 6-0 sigri.  Andri Rúnar kom Íslandi yfir á 30. mínútu og var staðan í hálfleik 1-0 fyrir Ísland. Andri Rúnar gat komið Íslandi yfir á 13. mínútu úr vítaspyrnu en markvörður Indónesíu varði frá honum.

Srax í upphafi síðari hálfleiks skoraði Kristján Flóki Finnbogason gott skallamark eftir aukaspyrnu frá Alberti Guðmundssyni. Á 55. mínútu þurfti dómari leiksins að stöðva leikinn vegna þrumuveðurs sem skyndilega skall á en leikurinn hélt áfram um stundarfjórðungi síðar.

Óttar Magnús Karlsson var svo einn þeirra sem skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í dag en hann kom Íslandi í 3-0 á 65. mínútu. Þá fóru mörkin að hrannast inn en þremur mínútum síðar komst Tryggvi Hrafn Haraldsson á blað þegar hann kom Íslandi í 4-0.

Miðvernirnir tveir, Hjörtur Hermannsson og Hólmar Örn Eyjólfsson, bættu svo við mörkum fyrir Ísland og lokatölur í Indónesíu 6-0. Hjörtur og Hólmar með sín fyrstu mörk fyrir A-landsliðið.

DEILA