Segja Arnarlax uppfylla alla lögbundna staðla og reglur

Arnarlax á Bíldudal gerir athugasemdir við frétt sem birtist á Bylgjunni og Vísi í gær. Í fréttinni er rætt við starfsmann Náttúrustofu Vestfjarða og fram kemur sú skoðun að eftirliti með fiskeldi sé ábótavant. Í fréttinni er haft eftir Christian Gallo, vistfræðingi hjá Náttúrustofu Vestfjarða að eftirlit með fiskeldi virki ekki vel þegar fyrirtækin ákveði að fylgja ekki alþjóðlegum stöðlum.

„Þá eru ekki fyrir hendi nein ákveðin viðmið um hvað sé ásættanlegt ástand og hvað ekki,“ segir Christian og bætir við ekki virðast vera til reglur um hvað skuli gera þegar svæði koma illa út úr svokallaðri umhverfisvöktun og ekkert sem skyldar fyrirtæki til að hvíla svæði varðandi áframhaldandi fiskeldi komi það illa út úr athugun.

Í fréttatilkynningu Arnarlax segir að allt fiskeldi fyrirtækisins uppfylli alþjóðlegan staðal NS 9415:2007 ásamt því að hafa staðist burðarþolsmat, áhættumat, staðarúttekt og umhverfismat. „Það er ekki valkvætt og er bundið í lög,“ segir í fréttatilkynningunni og er bent á að Arnarlax uppfylli staðal Whole Foods Market sem er tekin út af óháðum aðila árlega. Staðallinn gerir meðal annars kröfur um að áhrif eldisins á umhverfið séu lágmörkuð.

Í frétt Vísis kemur einnig fram að Arnarlax hafi slitið samstarfi við Náttúrurustofu Vestfjarða. Í fréttatilkynningunni segir að Arnarlax hafi átt í góðu samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða, þar á meðal keypt af þeim umhverfisvöktun. Á síðasta ári var samdi Arnarlax við norska fyrirtækið Akvaplan Niva um að sinna umhverfisvöktun en Náttúrustofan mun áfram sinna súrefnisvöktun fyrir félagið.

DEILA