Norðvestanátt og snjókoma í dag

Veðurstofan spáir norðvestanátt á Vestfjörðum í dag, 15-20 m/s og snjókoma. Síðdegis er spáð 8-15 m/s og stöku él og vægu frosti. Hvassast nyrst á Vestfjörðum. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að nú er lægðin sem fór yfir landið í gær komin að norðurströndinni aftur því hafi hvesst fyrir norðan land aftur með aukinni úrkomu. Sunnantil á landinu er norðvestanáttin óðum að taka yfir eftir suðvestannáttina enda kominn mun minni vindur og úrkoma. Lægðin margumrædda hefur ekki lokið sér af með okkur ennþá því að í dag kemur hún inná norðurland og færist síðan til austurs. Í nótt færir hún sig síðan aftur norður fyrir land og því hvessir aftur með ofankomu fyrir norðan á morgun. Eins er útlit að hvessi með ofankomu um allt vestanvert landið um tíma á morgun og því gott að fylgjast vel með spám því minniháttar breytingar á staðsetningu lægðarinnar getur haft miklar breyringar í för með sér hvar veður verður vont á hverjum tíma.

Færð á vegum

Vegurinn um Súðavíkurhlíð er lokaður vegna snjóflóðahættu. Á Vestfjörðum er þæfingsfærð og skafrenningur á Gemlufallsheið, Hálfdán og Mikladal. Ófært er í Súgandafirði og á flestum öðrum fjallvegum.

DEILA