Málefni skjalageymslunnar komin í hnút

Norðurtangahúsið.

Ísafjarðarbær hefur ekki staðið við leigusamning við Hraðfrystihúsið Norðurtanga ehf. (HN) eftir því sem kemur fram í bréfi lögmanns HN til Ísafjarðarbæjar. Bærinn og HN gerðu með sér leigusamning um húsnæði fyrir Skjalasafn Ísafjarðarbæjar, Byggðasafnið og fleiri söfn í sveitarfélaginu. Í bréfi lögmannsins er skorað á Ísafjarðarbæ að gera upp útistandandi leigu og dráttarvexti og HN áskilur sér rétt til að rifta samningnum verði skuldin ekki gerð upp og ennfremur segir að frekari töf á greiðslum feli í sér innheimtuaðgerðir og getur leitt til málshöfðunar. Í bréfi lögfræðingsins segir að skuldin sé 4,7 milljónir kr.

Óhætt er að segja að málefni skjalasafnsins eru komin í hnút og í dag talast Ísafjarðarbær og HN við í gegnum lögfræðinga.

Í svarbréfi lögmanns Ísafjarðarbæjar er kröfum HN algjörlega hafnað. Þar segir að HN hafi ekki staðið við skilalýsingu húsnæðisins og af þeim sökum hafi Byggðasafn Vestfjarða sagt upp leigusamningi á sínum hluta gagnvart Ísafjarðarbæ og þar með brast forsenda bæjarins að leigja þann hluta Norðurtangans.

Lögmaður Ísafjarðarbæjar rekur síðan að eftir það hófust samningaviðræður bæjarins og HN um breyttan leigusamning í ljósi þess að Byggðasafnið ætlaði ekki inn í húsið. Nýtt samkomulag tókst og var það samþykkt í bæjarráði um miðjan júní í fyrra. Í bréfi lögfræðings Ísafjarðarbæjar segir að mánuði síðar hafi HN tilkynnt Ísafjarðarbæ að viðskiptabanki félagsins hafi ekki samþykkt nýjan leigusamning en bankinn er með veð í leigugreiðslunum, sem eðli málsins samkvæmt eru lægri eftir að Byggðasafnið gekk út.

Ísafjarðarbær lítur svo á að fyllilega hafi verið staðið við samkomulagið sem var samþykkt í júní í fyrra og að bærinn hafi innt af hendi greiðslur í samræmi við það.

DEILA