Landsmönnum fjölgaði um 1.840

Landsmönnum fjölgaði um 1.840 á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Í lok ársfjórðungsins bjuggu alls 348.580 manns hér á landi, 177.680 karlar og 170.910 konur, að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofu Íslands. 222.590 bjuggu á höfuðborgarsvæðinu en 126.000 utan þess.

Alls fæddust 1.020 börn á fjórða ársfjórðungi en 550 létust. Á sama tíma fluttust 1.390 fleiri einstaklingar til landsins en frá því. Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 110 umfram brottflutta, og var aldursskipting þeirra nokkuð jöfn fyrir utan aldurshópinn 20 til 29 ára en það var eini aldurshópurinn þar sem fleiri fluttust frá landinu en til þess.

Aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.280 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu og voru 520 þeirra á þrítugsaldri.

DEILA