Kalkþörungafélagið vill kaupa orku frá Hvalárvirkjun

Gunnar Gaukur (t.v.) og Einar Sveinn handsala viljayfirlýsinguna.

Vesturverk ehf. og Marigot ltd., eigandi Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal við Arnarfjörð, hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup á allt að átta megawöttum af raforku í tengslum við fyrirhugaða kalkþörungaverksmiðju Marigot í Súðavík. Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður Vesturverks og forstjóri HS Orku, greindi frá þessu á kynningarfundi Vesturverks á Ísafirði í dag. Á fundinum var einnig opnuð ný vefsíða Vesturverks.

Marigot ráðgerir að reisa verksmiðju í Súðavík sem vinna mun kalkþörunga úr Ísafjarðardjúpi og er áætlað að gangsetja verksmiðjuna árið 2020. Þegar verksmiðjan verður komin í fullan rekstur munu um 30 manns starfa við hana.

Viljayfirlýsingin lýtur að því að fyrirtækið kaupi raforku til verksmiðjunnar af Vesturverki í framhaldi af mögulegri uppbyggingu Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði á Ströndum. Þegar verksmiðjan hefur náð fullum afköstum verður aflþörf hennar átta megawött.

Yfirlýsingin var undirrituð á Ísafirði þann 10. janúar af þeim Gunnari Gauki Magnússyni, framkvæmdastjóra VesturVerks, og Einari Sveini Ólafssyni, nýfjárfestingastjóra Marigot á Íslandi. Fram kemur í yfirlýsingunni að endanlegt samningsverð muni m.a. ákvarðast af kostnaðarverði framleiddrar orku í Hvalárvirkjun og verður það í samhengi við markaðsaðstæður á þeim tíma sem verksmiðjan tekur til starfa. Gildistími samnings verður 10 ár frá gangsetningu verksmiðjunnar.

Lagaleg skuldbinding aðila er háð gerð endanlegs og skriflegs orkukaupasamnings og er stefnt að gerð hans á vormánuðum að því gefnu að uppbygging Hvalárvirkjunar verði tryggð.

DEILA