Hvetur Ísafjarðarbæ til að endurskoða úrsögnina

Sveitarstjórn Reykhólahrepps harmar þá ákvörðun Ísafjarðarbæjar að draga sig úr Byggðasamlagi um málefni fatlaðra á Vestfjörðum og hvetur bæinn til að draga úrsögnina til baka. Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnar Reykhólahrepps.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti undir lok síðasta ár að segja sig úr Byggðasamlaginu. Var það samþykkt með atkvæðum bæjarfulltrúa Í-listans og Framsóknarflokks en Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn tillögunni. Ísafjarðarbær hafði áður óskað eftir því að taka yfir málaflokkinn og gerast leiðandi sveitarfélag, eins og það var orðað. Með því hefði öll þjónusta sem Byggðasamlagið veitir í dag verið á hendi Ísafjarðarbæjar og önnur sveitarfélög hefðu keypt þjónustu af Ísafjarðarbæ. Tillagan fékk ekki hljómgrunn hjá öðrum sveitarfélögum sem eru í Byggðasamlaginu.

Í bókun Reykhólahrepps segir að Byggðasamlagið sé ein styrkasta stoð sveitarfélaganna um samvinnu um jafn viðkvæmt málefni eins og málefni fatlaðra og að samstarfið hafi hingað til einskorðast við jákvæða samvinnu sveitarfélaganna á Vestfjörðum gagnvart ríkinu til að mega þjóna skjólstæðingum sínum vel. Sveitarstjórn Reykhólahrepps hvetur Ísafjarðarbæ tilað draga úrsögn sína til baka og sinna þannig hlutverki sínu sem leiðandi sveitarfélag á Vestfjörðum.

DEILA