Hvessir á ný seinnipartinn

Veðurstofan spáir suðaustanátt á Vestfjörðum framan af degi, 10-15 m/s. Hiti 2 til 7 stig og suðvestan 13-20 m/s seinnipartinn í dag og heldur svalara og slydduél.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að á morgun er útlit fyrir suðvestan strekking eða allhvassan vind og með fylgja él eða skúrir. Það léttir til um landið norðaustanvert. Hitinn þokast niðurávið og verður ekki mikið yfir frostmarki. Annað kvöld verður úrkoman orðin samfelldari, það bætir í vindinn og fer að kólna meira. Aðfaranótt sunnudags og á sunnudaginn mun því snjóa nokkuð víða um land samfara stífum vindi.

Langtímaspár gera síðan ráð fyrir að norðanátt ráði ríkjum í næstu viku með frosti á öllu landinu og ofankomu norðanlands.

DEILA