Háspenna í lokin

Hamarsmenn áttu í erfiðleikum með Nemanja Knezevic.

Hamar og Vestri áttust við í 1. deild karla í körfubolta í Hveragerði á föstudagskvöld. Fyrir leikinn voru Vestramenn í þriðja sæti með tveimur fleiri stig en Hamar sem voru í fimmta sæti.

Í leikskýrslu sem birtist á karfan.is segir að það hafi verið jólasteikurbragur á leiknum, liðin hittu illa úr skotum sínum og töpuðu margsinnis boltum og leikurinn „gífurlega ljótur framan af.“

Hamarsmenn áttu í erfiðleikum með að dekkað stóran mann Vestra, Nemanja Knezevic, sem sást á því að þeir voru fljótlega lentir í bullandi villuvandræðum. Fyrsta leikhlutanum lauk 16-19, gestunum í vil. Lítið breyttist í öðrum leikhlutanum en það var áfram léleg skotnýting hjá báðum liðum og sem dæmi þá hittu hamarsmenn ekki úr þriggja stiga skoti í fyrri hálfleiknum, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Staðan í hálfleik var 32-36

Í seinni hálfleik fóru talsvert fleiri þristar að detta hjá báðum liðum þó að hvorugt lið gat skilið sig almennilega frá hinu. Þessi leikhluti var sá lang stærsti, en liðin skoruðu í honum nokkurn veginn jafn mikið og í öllum fyrri hálfleiknum. Þegar líða tók á fjórða leikhluta kviknaði á báðum liðum og þau fóru að skiptast á körfum og leikurinn varð skyndilega jafn og spennandi. Þegar stutt var eftir komust heimamenn þremur stigum yfir og staðan ekki góð fyrir gestina. Á lokasekúndunni gat Nemanja hins vegar tekið erfiðan þrist og jafnaði leikinn þannig að framlengja þurfti um 5 mínútur.

Í framlengingunni voru liðin áfram jöfn en óheppilegt klúður hjá Vestra á lokasekúndunni gerði Smára Hrafnsson kleift að koma heimamönnum einu stigi yfir. Nebojsa Knezevic fékk lokaskotið en það geigaði því miður og lokastaðan varð því 98-97, Hamri í vil.

DEILA