Gæti þurft að fækka flugvöllum

Komi ekki meira fjármagn til reksturs innanlandsflugvalla á næstu þremur árum frá hinu opinbera gæti þurft að fækka þeim þar sem erfitt gæti reynst að uppfylla öryggiskröfur þeirra. Fjármagn hefur verið skorið niður á hverju ári síðustu ár og er langt undir viðurkenndum mörkum.

Þetta kom fram á málþingi sem Isavia stóð fyrir í gær um framtíð innanlandsflugs á Íslandi í dag en þróunin hefur verið frekar neikvæð sé horft til farþegaaukningar um flugvelli landsins síðustu tuttugu ár. Fjölgun íbúa og fjölgun erlendra ferðamanna sést ekki í aukinni eftirspurn í innanlandsflugi. Frá þessu er greint á visir.is.

„Þeim hefur fjölgað aftur síðustu fimm sex ár, en þetta er búið að vera mjög sveiflukennt ef þú tekur síðustu tuttugu ár, þá hefur þróunin verið frekar neikvæð og svona eiginlega flöt lína,“ segir Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, í samtali við blaðamann Vísis.

 

„Við höfum haldið því fram að kerfið sé komið að þolmörkum. Það hefur verið dregið saman fjármagn sem hefur verið lagt í viðhald og uppbyggingu. Nýframkvæmdir eru litlar sem engar og það er að koma að því núna að menn þurfa að fara ákveða sig hvort þeir ætli að halda flugkerfinu eins og það er gangandi áfram eða hvort það þurfi að fara velja hvaða staðir verða áfram því það verður ekki haldið áfram á sömu braut,“ segir Jón Karl.

Á næstu þremur til fimm árum er komið að mikilli endurnýjun og viðhaldi á flestum flugvöllum landsins  Gert er ráð fyrir tæplega tveimur milljörðum í rekstur flugvalla á árinu 2018 og þar af fara aðeins um 270 milljónir í viðhald flugvalla. Ekki er gert ráð fyrir neinum nýframkvæmdum í þessum tölum.

DEILA