Fjalla um aukna greiðsluþátttöku ríkisins

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp til að fjalla um aukna greiðsluþátttöku ríkisins í tannlækningum lífeyrisþega. Hálfur milljarður króna er til ráðstöfunar í þessu skyni samkvæmt fjárlögum 2018.

Samkvæmt reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði við tannlækningar ætti greiðsluþátttaka ríkisins í kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar að nema 75% að jafnaði og vera einstaklingum á hjúkrunarheimilum að kostnaðarlausu.

Greiðsluhlutfallið sem kveðið er á um í reglugerðinni tekur mið af gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands vegna tannlækninga lífeyrisþega sem hefur verið óbreytt frá árinu 2004. Hún endurspeglar því engan veginn raunverulegan tannlækniskostnað lífeyrisþega sem greiða samkvæmt gjaldskrá starfandi tannlækna. Í raun nema því greiðslur ríkisins að jafnaði um fjórðungi af þeim kostnaði sem lífeyrisþegar greiða fyrir tannlækningar.

Starfshópurinn sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa mun fá það hlutverk að móta tillögur um hvernig tryggja megi að fjárframlög vegna kostnaðar aldraðra og öryrkja við tannlæknaþjónustu nýtist sem best, svo tryggja megi að þörfum lífeyrisþega fyrir tannlæknaþjónusta verði sinnt.

Fyrsta skref í lækkun tannlæknakostnaðar lífeyrisþega verður stigið eftir mitt þetta ár en með fjárlögum 2018 var ákveðið að auka framlög til þessa verkefnis um hálfan milljarð króna.

DEILA