Tvenna hjá Vestra

Yngstu iðkendur Vestra í krílakörfu og krakkakörfu leiddu leikmenn Vestra inn á völlinn fyrir leikinn við Breiðablik.

Vestri lék tvo leiki um helgina í 1. deild Íslandsmótsins í körfubolta. Á föstudag lék liðið við Breiðablik í íþróttahúsinu á Torfnesi. Vestramenn byrjuðu hræðilega illa og lentu 0-10 undir eftir aðeins eina og hálfa mínútu. Þótt Vestramenn hafi vaknað til lífsins skömmu seinna var þessi 10 stiga munur viðvarandi út megnið af hálfleiknum en varð mestur 16 stig Blikum í vil á þrettándu mínútur í stöðunni 17-33. En þá var botninum náð hjá Vestramönnum og þeir fundu magnaða viðspyrnu í gamla góða gólfinu. Það sem eftir lifði af öðrum leikhluta skoraði Vestri  28 stig gegn 6. Blikar sem höfðu hitt vel urðu staðir gegn vel heppnaðri svæðisvörn og einnig óheppnir í skotum sínum.

Eftir þetta var ekki aftur snúið. Það mátti meira að segja greina uppgjöf í Blikum þegar þeir komu út úr klefanum í hálfleik. Lið sem fagnaði af ákafa öllum körfum í fyrsta fjórðungi virtist nú uppteknara af því að hengja haus og horfa ofan í parketið sem senn heyrir sögunni til, en um helgina hófust langþráðar framkvæmdir í íþróttahúsinu þar sem skipta á um gólfefni. Vestri náði mest 26 stiga forystu en endaði leikinn sem fyrr segir með 16 stiga sigri 96-80. Lið Vestra er ósigrað á heimavelli.

Útileikirnir hafa reynst Vestra erfiðari og liðið ekki náð að landa útisigri – þangað til í gær. Gnúpverjar tóku á móti Vestra í Fagralundinum í Kópavogi í gær. Vestri hóf leikinn betur og komust fjótt í 10 stiga forystu áður en Maté Dalmay, þjálfari Gnúpverja, tók leikhlé og skammaði sína menn fyrir að hafa ekki mætt til leiks á réttum tíma. Gnúpverjar tóku sig á og fóru að skora en þá voru Vestramenn þegar komnir á bragðið og héldu áfram að skora. Leikhlutanum lauk 17-31, Ísfirðingunum í vil.

Gnúpverjar náðu að laga stöðuna í öðrum leikhlutanum með því að hitta úr nokkrum þristum og takmarka sóknarfráköst gestanna. Heimamenn voru líka duglegir að keyra í bakið á Vestramönnum eftir skoraða körfu og skora meðan gestirnir voru enn uppteknir við að fagna því að hafa skorað. Það dugði ekki til að þeir næðu forystunni og Vestri lokaði fyrri hálfleiknum 44-51.

Hálfleikshléið virtist ekki gott fyrir heimamenn þar sem að Vestri hóf seinni hálfleiknum á því að taka 13-3 áhlaup á fyrstu fimm mínútunum. Gnúpverjar tóku sig aðeins á seinni fimm og skoruðu 7 stig gegn 6 stigum hjá Vestra en skaðinn var þá skeður. Gnúpverjar áttu ágætan lokafjórðung en það reyndist ekki nóg til að vinna upp muninn alveg. Leiknum lauk 85-96, Vestra í vil.

DEILA