Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki hótun um úrsögn.

Daníel Jakobsson

Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar með samþykki atkvæða Í-listans og Framsóknarflokksins tók þá ákvörðun að slíta samstarfi sveitarfélaga á Vestfjörðum um samrekstur þjónustu við fatlað fólk. Ákvörðunin um að ganga úr Byggðarsamlaginu sem sér um reksturinn var ekki studd af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Ákvörðun þessi lætur kannski ekki mikið yfir sér en hún er um margt merkileg og hún er risastór. Um er að ræða stærsta samstarfsverkefni sveitarfélaga á Vestfjörðum og við Sjálfstæðismenn viljum ekki skrifa upp á það að slíta beri því samstarfi. Það er okkar sýn að við verðum að vinna saman. Til að svo sé þurfa sveitarfélögin að vera tilbúin til að miðla málum. Ekki fara í fýlu ef maður nær ekki öllu sínu í gegn og hóta úrsögn. Sú vegferð sem Í-listinn og Framsóknarflokkur eru að hefja er ekki líkleg til að efla samstarf á svæðinu.

Ef við stöndum ekki saman náum við ekki árangri

Við búum að veikasta svæði landsins, hér er fullt af áskorunum (og tækifærum) og það eitt er víst að ef við stöndum ekki saman náum við ekki árangri. Kannski hefur það átt of lengi við hér hjá okkur. Það er líka vert að horfa til þess að íbúar okkar hafa valið að starfa saman. Hér er verið að sameina íþróttastarf, kóra og menningarstarf og fyrirtækin okkar og stofnanir vinna saman um allt svæðið. Það er því grátlegt að þeir fulltrúar sem við höfum valið til að starfa fyrir okkur séu þess ekki mengir að ná málamiðlun sem allir geta við unað.

Ekki kostur í stöðunni að slíta þessu samstarfi

Í þessu tiltekna máli hefur það legið fyrir um langt skeið að Ísafjarðarbær á lang mest undir þegar kemur að þjónustu við fatlað fólk á Vestfjörðum. Um 90% af þjónustunni fer fram hér en restin í hinum sveitarfélögunum. Það ætti því að vera augljóst að sjónarmið Ísafjarðarbæjar eiga að vega þungt. En það er líka þannig að hin sveitarfélögin taka þátt í að greiða fyrir þjónustuna og það á því líka að vera skiljanlegt að sjónarmið þeirra þurfa að heyrast. Það er ekki bara einn sem ræður. Hvað sem öllu líður þá hlýtur það að vera krafa okkar, að þegar að búið er að skoða málið í tvö ár ætti að vera hægt að finna málamiðlun sem allir geta unað við. Mín tilfinning er að sú málamiðlun sé ekki fullreynd og því tel ég ekki tímabært að taka svo afdrifaríka ákvörðun sem raun ber vitni enda er það ekki kostur í mínum huga að slíta þessu samstarfi. Sér í lagi þegar að hagsmunir fatlaðs fólks eru hafðir í huga.

Auka þarf samstarf vestfirskra sveitarfélaga

Ef við ætlum að ná árangri hér verðum við Vestfirðingar að vinna saman. Með tilkomu Dýrafjarðarganga verður til nýr veruleiki hér hjá okkur. Það verður loksins raunhæft að efla samvinnu á milli svæða. Við eigum ekki eyða tíma okkar í að rífast, okkar í milli. Tímanum er miklu betur varið í að sækja fram saman með hagsmuni allra í húfi. Þess vegna þarf að auka samstarf á milli sveitarfélaga á öllum sviðum. Hvort sem það eru skipulagsmál, fjármál, slökkvilið, hafnir, skólar eða markaðssetning svæðisins svo dæmi séu tekin. Alls staðar eru við sterkari saman en sundruð.

Vestfjarðarstofa byrji á að styrkja ímynd Vestfjarða

Stofnun Vestfjarðarstofu á dögunum gaf góð fyrirheit um að hægt sé að efla samstarf. Þar eru saman komin bæði atvinnulíf og stjórnmál af öllum svæðum á Vestfjörðum. Eitt af fyrstu verkefnum stofunnar ætti að mínu mati að vera það að skilgreina betur samstarf sveitarfélaga á svæðinu og draga fram hvar heppilegast er að vinna saman. Lítið dæmi sem gæti skilað miklu væri t.d. að sameina heimasíður og markaðsefni sveitarfélaga á Vestfjörðum. Þannig væru allar síðurnar svipaðar og sameiginlegt lógó og slagorð Vestfjarða væri þar áberandi og fyrirtæki af svæðinu gætu jafnvel notað það líka. Það styrkir okkur bæði út á við og inn á við og minnir okkur á að við erum ein heild og að sameinuð stöndum vér en sundruð föllum við.

Sú vegferð sem Í-listinn og Framsóknaflokkurinn hafa hafið hefur skaðað samstarf sveitarfélaga á Vestfjörðum, algjörlega að óþörfu. Yfirlýsing oddvita allra sveitarfélaga á Vestfjörðum ber vott um það. Að hóta úrsögn úr samstarfi sveitarfélaga um málefni fatlaðs fólks er dæmi um yfirgang og óbilgirni sem ég vill ekki taka þátt í. Ísafjarðarbær verður ekki leiðandi sveitarfélag með slíkum vinnubrögðum.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

DEILA