Orkubú Vestfjarða 40 ára

Elías Jónatansson, orkubússtjóri.

Orkubú Vestfjarða tók formlega til starfa þann 1. janúar 1978, en stofnsamningurinn var undirritaður þann 26. ágúst 1977 af vestfirksum sveitarstjórnarmönnum og þáverandi iðnaðarráðherra.  Orkubúið á því 40 ára starfsafmæli þann 1. janúar 2018.  Upphaflega var Orkubúið sameignarfélag og eignarhaldið þannig að sveitarfélögin áttu 60% og ríkið 40%, en eignarhluti sveitarfélaganna skiptist innbyrðis í hlutfalli við íbúatölu.  Sveitarfélögin lögðu inn eignir rafveitna í þeirra eigu ásamt öllum rétti til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallvatns í eigu og sveitarfélaganna, sem stofnfé, en ríkið lagði inn virkjanir og aðrar eignir Rafmagnsveitna ríkisins  á Vestfjörðum á þeim tíma, sem sitt stofnfé.  Orkubú Vestfjarða hf var svo stofnað 1. júní 2001 og var eignarhaldið óbreytt í upphafi, en sveitarfélögin seldu síðar sinn hlut til ríkisins sem á öll hlutabréfin í fyrirtækinu í dag.

Hér verður ekki rakin 40 ára saga Orkubúsins, en tæpt á ýmsum þáttum sem tengjast orkumálum á Vestfjörðum þá og nú.  Starfsmönnum Orkubúsins, bæði núverandi og fyrrverandi, eru færðar hamingjuóskir í tilefni dagsins.

Orkudreifing
Orkubú Vestfjarða dreifir árlega orku sem nemur um 260 GWst eða fimm sinnum meiri orku en dreift var fyrsta árið sem Orkubúið starfaði.  Eigin framleiðsla Orkubúsins er ríflega 90 GWst af raforku, en 60 til 70 GWst eru keyptar af öðrum framleiðendum innan og utan Vestfjarða.  Auk þess kaupir Orkubúið árlega 80 til 90 GWst af skerðanlegri raforku fyrir rafkyntar hitaveitur á Vestfjörðum.  Markmið Orkubúsins er að auka eigin orkuöflun með frekari virkjunum til að mæta þörfinni sem er til staðar á Vestfjörðum auk þess sem markmiðið er að auka vinnslu jarðhita til húshitunar.

Rafkyntar hitaveitur (fjarvarmaveitur)
Á undanförnum 40 árum hafa náðst ýmsir mikilvægir sigrar í orkumálum Vestfirðinga og stundum hafa menn farið ótroðnar slóðir.  Sem dæmi um það má nefna að fyrsta rafkynta hitaveitan á Íslandi var byggð af Orkubúi Vestfjarða.  Rafkyntar hitaveitur Orkubúsins (fjarvarmaveitur) eru 6 að tölu.  Hagkvæmni rafkyntra hitaveitna byggir á aðgengi að raforku á hagstæðu verði fyrir rafskautakatla veitnanna.  Rekstrarlega var það á sínum tíma hagkvæmt að byggja upp miðlægar orkustöðvar vegna þess að þá var hægt að byggja varaafl upp með olíukötlum í stað þess að þurfa að byggja upp dísil-rafstöðvar til raforkuframleiðslu, sem hefði verið margfalt dýrara.  Beinni kyndingu með olíukötlum var á skömmum tíma nánast útrýmt á Vestfjörðum í kjölfar uppbyggingar Orkubúsins.  Öllum ber saman um það í dag að kynding húsa með jarðvarama sé afar skynsamlegur kostur og í lang flestum tilfellum er hann einnig sá hagkvæmasti.  Það hefur ekki gengið að finna jarðhita í virkjanlegu formi í stærstu þéttbýliskjörnunum á Vestfjörðum ennþá, en full ástæða er til að kanna þann valkost betur, enda benda rannsóknir til þess að jarðhiti sé til staðar.

Með hækkandi raforkuverði er tímabært að hugað sé að því hvernig áfram sé hægt að tryggja hagkvæman rekstur fjarvarmaveitnanna.  Tveir valkostir koma helst til greina.  Annarsvegar er það rekstur miðlægra varmadælna í stað núverandi rafkatla en hinsvegar að finna leiðir til að nýta jarðvarma á veiturnar þar sem þess er nokkur kostur.  Blönduð leið gæti svo verið að nýta jarðvarma sem finnst í einhverjum mæli, en hefur ekki nægilega hátt hitastig.  Þá yrði volgt vatn nýtt á varmadælu sem skilaði síðan út nægilega heitu vatni fyrir hitaveitu.  Reikna má með að hagkvæmni slíkra kerfa gæti verið talsverð þótt hún væri ekki á pari við fullgilda jarðvarmaveitu.  Borun eftir heitu vatni er alltaf áhættusöm, en auðvelt er að sýna fram á þjóðhagslegan ávinning af því að geta nýtt jarðhita í stað raforku.

Orkuöryggi – öflun orku
Tenging raforkukerfisins á Vestfjörðum við landskerfið með Vesturlínu úr Hrútatungu í Mjólká um
160 km leið, var stórvirki á sínum tíma (1980), en hún leysti þá af hólmi dísilrafstöðvar sem reknar voru af Orkubúi Vestfjarða og gaf um leið möguleika á húshitun með rafmagni.  Vesturlína var gríðalega mikilvæg fyrir Vestfirði þá eins og nú.  Línan fer hinsvegar um eitt erfiðasta veðursvæði landsins og veldur það iðulega rafmagnstruflunum.  Hún svarar því ekki kröfum nútímans, ein og sér, hvað rekstraröryggi varðar og því er raunin sú að allt forgangsafl á Vestfjörðum er í dag baktryggt með varaafli í eigu Orkubús Vestfjarða og Landsnets, til að tryggja orkuöryggið.  Tvöföldun Vesturlínu með sambærilegri línu sem á sínum kostaði yfir 5 milljarða á núvirði mundi að líkindum ekki gefa nægilegt öryggi þar sem línan færi væntanlega um sama veðursvæði og núverandi lína.  Valkosturinn væri þá að byggja línu sem væri mun öflugri og kostaði þar af leiðandi mun meira.  Landsnet hefur metið að tvöföldun á Vesturlínu gæti kostað á bilinu 6 til 10 milljarða.  Augljósasti kosturinn í stöðunni og örugglega sá lang hagkvæmasti er að byggja upp orkuframleiðslu á svæðinu með virkjun vatnsafls sem tengt yrði notendum með öruggri tengingu.

Til að setja hlutina í samhengi þá mætti hæglega byggja virkjun eða virkjanir af stærðargráðunni 15 til 20 MW fyrir jafn mikla fjármuni, en „spara í staðinn“ tvöföldun Vesturlínu.  Þann „sparnað“ mætti svo nota í aðra uppbyggingu flutningskerfisins sem væri tekjumyndandi.  Eitt dæmi um slíka framkvæmd væri nýr tengipunktur í Ísafjarðardjúpi.  Virkjanir skila virkjunaraðilum tekjum til að standa undir fjárfestingu virkjunar.  Nýr tengipunktur skilar Landsneti tekjum til að standa undir fjárfestingu fyrirtækisins, en tvöföldun Vesturlínu skilar hinsvegar engum  tekjum til Landsnets.  Stærri virkjun en 15 til 20 MW mundi svo enn auka orkuöryggið, sérstaklega gagnvart nýjum atvinnutækifærum sem krefjast orku.

Aflþörf ræðst af hámarksnotkun
Undanfarin misseri hefur mikil umræða átt sér stað um raforkumál á Vestfjörðum.  Það flækir óneitanlega umræðuna að ábyrgð á flutningi raforku inn á Vestfirði hvílir á herðum Landsnets sem hefur sérleyfi á flutningi raforku á meðan dreifingin er í höndum Orkubús Vestfjarða.  Í nóvember sl. voru afltoppar (inn)fluttrar raforku um Vesturlínu nálægt 34 MW, þar af voru afltoppar (hámarksnotkun) forgangsorku nálægt 20 MW.  Á sama tíma var einnig verið að nýta afl virkjana á Vestfjörðum til framleiðslu forgangsorku sem nam ríflega 10 MW.  Bilun á Vestfjarðalínu hefði þá þýtt að keyra þyrfti 20 MW af varaafli, 10 MW í eigu Landsnets og 10 MW í eigu Orkubúsins.  Auk þess hefðu olíukatlar verið ræstir til að mæta 14 MW orkuþörf fjarvarmaveitna fyrir húshitun.

Þrátt fyrir allt þá er orkuöryggið á Vestfjörðum í dag gjörólíkt því sem áður var, ekki síst með tilkomu varaaflsstöðvar Landsnets í Bolungarvík og eflingu og endurbótum á varaaflsstöðvum Orkubús Vestfjarða.  Þá hafa jarðstrengir tekið við af línum víða í dreifbýlinu.  Þótt litlum virkjunum sé að fjölga á Vestfjörðum þá eru þær yfirleitt með minni framleiðslu á þeim árstíma sem aflþörfin er mest, enda í flestum tilfellum svokallaðar rennslisvirkjanir sem ekki geta geymt vatnsforða.

Til að tryggja það þjónustustig sem nú er, þarf að óbreyttu  að byggja upp varaafl fyrir nýja forgangsorkunotendur á Vestfjörðum.  Það er augljóst að það er ekki þjóðhagslega hagkvæmt að þurfa alltaf að byggja upp jafnmikið varaafl og forgangsorku í stað þess að vera með tiltækt afl í virkjun innan Vestfjarða sem hægt er að grípa til.  Rétt er að hafa í huga að til þess að virkjanir á Vestfjörðum geti virkað sem „varaafl“ við bilun, t.d. á Vesturlínu, þá er nauðsynlegt að alla jafnan sé útflæði á orku frá Vestfjörðum.

Jarðhitaleit
Venjulega má reikna með að orka sem þarf til að hita heimilið sé nálægt sexföld sú orka sem þarf til ljósa og annarar raforkunotkunar þess.  Þegar gerður er samanburður á heildar orkukostnaði heimila verður því verðið á orkueiningu til hitunar afgerandi.  Þar sem raforka er mun dýrari orkumiðill en jarðvarmi þá er hún engan veginn samkeppnisfær þegar kemur að húshitun.  Þess vegna hafa stjórnvöld farið þá leið að jafna húshitunarkostnað í landinu með því að greiða niður flutning og dreifingu raforku til húshitunar og jafna þannig að hluta lífskjör þeirra sem búa við jarðvarma og hinna sem búa á svokölluðum köldum svæðum.  Stefna stjórnvalda og fjárveitingar til niðurgreiðslu ráða þannig miklu um það hvernig samkeppnisfærni eins landsvæðis er gagnvart öðrum svæðum hvað búsetu varðar, en rétt er að taka fram að fyrirtæki og stofnanir njóta ekki niðurgreiðslna að öðru leyti en sem nemur  svokölluðu dreifbýlisframlagi.  Það er auðvitað pólitískt viðfangsefni að bregðast við því að sífellt færri neytendur á Vestfjörðum og víðar á landsbyggðinni standa á bakvið flutnings- og dreifikerfi sem sífellt þarf að efla til að það standist nútímakröfur.  Sá tónn sem sleginn er í nýjum stjórnarsáttmála varðandi uppbyggingu innviða hlýtur því að vera sérstakt fagnaðarefni.

Framtíðarsýn
Það er brýnt að hrinda strax í framkvæmd þeirri hringtengingu á milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða sem gert er ráð fyrir í drögum að kerfisáætlun Landsnets 2016 – 2025.  Þá þarf einnig að tryggja að orkan úr nýjum virkjunum á Vestfjörðum komist inn á þann hring með öruggum hætti.  Með því að orkuframleiðsla úr aflstöðvum og varaaflsstöðvum sé tengd inn á hring sem notendur eru einnig tengdir inn á, dregur  mjög úr líkum á straumleysi þótt bilun verði í einni einingu, t.d.  flutningslínu, á svæðinu.  Nýr tengipunktur í Ísafjarðardjúpi skiptir einnig sköpum hvað varðar nýtingu orkuauðlinda Vestfjarða eins og flestum mun nú vera kunnugt og því er nauðsynlegt að eyða allri óvissu varðandi þá framkvæmd sem fyrst.

Hagsmunir Orkubús Vestfjarða eru samofnir hagsmunum íbúanna á svæðinu.  Uppbygging atvinnufyrirtækjanna á svæðinu sem er í farvatninu krefst aukinnar orku og hefur Orkubúið þegar hafið vinnu við að bregðast við þeirri þörf með eflingu dreifikerfisins, en einnig eru nokkrir virkjanakostir til skoðunar.  Fólksfjölgun sem gera má ráð fyrir að fylgi í kjölfarið á uppbyggingu atvinnulífsins mun þýða aukna spurn eftir orku.

Orkubú Vestfjarða lítur á það sem hlutverk sitt að þjónusta heimili og fyrirtæki með framleiðslu og dreifingu á raforku og jarðvarma og nýtingu annarra umhverfisvænna orkugjafa á Vestfjörðum.   Það er markmið Orkubúsins að vinna áfram með íbúum og atvinnufyrirtækjum að uppbyggingu Vestfjarða með frekari orkuöflun og uppbyggingu raforkukerfisins.

Orkubú Vestfjarða þakkar viðskiptavinum sínum farsælt samstarf í 40 ár.


Elías Jónatansson, orkubússtjóri

 

DEILA