Olíunotkun flotans minnkað um 43%

Eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hefur í heild minnkað um tæplega 43% frá árinu 1990 til ársins 2016. Þetta kemur fram í umhverfisskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegir. Skýrslan er gefin út í tilefni þess að tvö ár eru frá undirritun Parísarsamkomulagsins um baráttu gegn loftslagsbreytingum. Í skýrslunni er fjallað olíunotkun í sjávarútvegi og væntanlega notkun til ársins 2030, auk annarra umhverfisþátta í starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja. Mikið hefur áunnist á undanförunum áratugum og mjög hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda sem rekja má til sjávarútvegs á Íslandi. Sú þróun heldur áfram á komandi árum. Einkum er horft til áranna 1990 til 2030 í skýrslunni, en það er það tímabil sem Parísarsamkomulagið miðast við.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirgreindar:

  • Sterkir fiskistofnar, framfarir í veiðum og betra skipulag veiða hafa leitt til verulega minni olíunotkunar í sjávarútvegi og þar með losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hefur í heild minnkað um tæplega 43% frá árinu 1990 til ársins 2016.
  • Reiknað er með að eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hafi dregist saman um 134 þúsund tonn frá árinu 1990 til ársins 2030. Þá verði bræðsla á fiski nær eingöngu knúin með rafmagni og raforkuframleiðsla um borð í fiskiskipum heyri til undantekninga þegar skip eru í höfn. Gangi þetta eftir mun eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hafa dregist saman um 54% á tímabilinu.
  • Ársnotkun eldsneytis í sjávarútvegi árið 2016 var sú lægsta frá árinu 1990, bæði frá fiskiskipum og fiskimjölsverksmiðjum.
  • Losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi hefur farið minnkandi ár frá ári síðan 1990 en þá var hlutfallið 19,5% af heildarlosun Íslands. Árið 2007 var hlutfallið komið niður í 13% og árið 2014 í 9,7%.
  • Sjávarútvegur á Íslandi hefur þegar náð markmiði Parísarsamkomulagsins
  • Fjárfestingarþörf í fiskiskipum fram til ársins 2030 er metin um 180 milljarðar króna. Nýrri og tæknivæddari skip munu draga enn frekar úr umhverfisáhrifum sjávarútvegs.
  • Hagkvæmnisútreikningar sýna að hagstæðara er að nota rafmagn úr landi þegar skip eru í höfn, frekar en að keyra ljósavélar sem ganga fyrir olíu.
  • Frá árinu 2006 til ársins 2016 hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sent á eigin vegum eða haft milligöngu um endurvinnslu á 8.400 tonnum af veiðarfæraúrgangi.

smari@bb.is

DEILA