Meðhöndlað við fiskilús í Dýrafirði

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Fiskilús hefur látið á sér kræla í sjókvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði. Fyrirtækið fékk leyfi frá Matvælastofnun til að meðhöndla fiskinn með lyfjafóðri. Frá þessu er greint á vef RÚV. Fiskilúsinn er minni en laxalúsin og veldur ekki eins miklum skaða á roði fisksins en er engu að síður hvimleið í eldi. Í frétt RÚV er haft eftir Sigríði Gísladóttur, dýralækni Matvælastofnunar á Ísafirði, að góð reynsla sé af lyfjafóðrinu í Færeyjum þar sem einnig hefur verið mikið af fiskilús að undanförnu. Fóðrið á ekki að hafa áhrif á fiskinn sjálfan en drepa lúsina þegar hún nærir sig á laxinum. Fóðrið er gefið þegar fiskurinn étur mikið svo það falli ekki til botns og verði að úrgangi. Lyfjafóðrið er gefið í um viku en virkar þó lengur.

Laxinn sem er í Dýrafirði var settur út í sumar og var á viðkvæmu vaxtarskeiði þegar fiskilúsinn kom upp í haust.

DEILA