Mannúðarmál og samfélagsmál að fá flóttafólk

Pétur G. Markan

Mannúðarmál og samfélagsmál að fá flóttafólk

Það er bæði mannúðarmál og samfélagsmál að taka á móti flóttafólki. Þetta segir Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps. Eins og greint var frá í gær eru sveitarfélögin við Djúp – Súðavíkurhreppur, Ísafjarðarbær og Bolungarvíkurkaupstaður – með til skoðunar að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi. Áætlað er að þeir verði á bilinu 20 til 30 manns. „Við sóttum um að taka á móti svokölluðum kvótaflóttamönnum fyrir tveimur árum en urðum ekki fyrir valinu. Svo gerist það að velferðarráðuneytið hefur samband fyrir stuttu og við tókum upp þráðinn aftur og helsta áskorunin er húsnæðismál,“ segir Pétur.

Hann leggur áherslu á að móttaka flóttamanna sé fyrst og fremst mannúðarverk. „En við viljum líka efla samfélögin okkar og þá þurfum við fólk til að efla félagsandann,“ segir Pétur.

Hann hefur fulla trú á að hægt verði að leysa húsnæðismálin. „Í svona málaflokkum er ótrúlega auðvelt að gefast upp við fyrstu hindrun, það er ekkert straumlínulagað í sveitarstjórnum í þessum málum. Þú verður að taka ákvörðun um að þetta sé eitthvað sem þú vilt gera og svo tekstu á við hindranirnar,“ segir Pétur.

DEILA