Leita að húsnæði fyrir flóttamenn

Gísli Halldór Halldórsson.

Ef lausn finnst á húsnæðismálum gætu 20-30 sýrlenskir flóttamenn flust vestur í Djúp innan ekki langs tíma. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að koma flóttamannanna verði á grunni samþykktar bæjarstjórnar frá árinu 2015. Á sama tíma gerðu bæjarstjórnir Bolungarvíkurkaupstaðar og Súðavíkurhrepps sambærilegar samþykktir. Gísli Halldór segir að bæjarstjórar sveitarfélaganna hafi fundað í gær með Rauða krossinum og Fjölmenningarsetri um stöðuna. „Eina fyrirstaðan er húsnæðismál, það er þröngt um húsnæði hjá okkur öllum. Við ætlum að gefa okkur viku til að komast að því hvort við getum leyst úr því,“ segir Gísli Halldór. Sveitarfélögin við Djúp munu vinna þetta saman að sögn Gísla Halldórs og um miðjan mánuðinn ætti að liggja fyrir hvort flóttamennirnir komi.

„Við ætlum meðal annars að leita til eigenda frístundahúsa sem standa mikið auð og biðla til þerra um að gera við okkur leigusamning til tveggja ára. Það væri mjög fallegt framlag þeirra að gera við okkur leigusamning og liðka þannig til,“ segir Gísli Halldór.

Aðspurður hvenær flóttamennirnir komi, ef af verður, segir Gísli Halldór að stjórnvöld hafi talað um miðjan janúar. „Þannig að þetta verður nokkuð bratt og allt þarf að ganga upp.“

Styrjöldin í Sýrlandi er á sínu sjöunda ári, en hún hófst í mars 2011. Landið er í rúst og talið að 340 þúsund manns hafi látið lífið í átökunum, þar af 100 þúsund óbreyttir borgarar. Á sjöttu milljón manns eru flótta vegna stríðsins og neyðin er mikil.

DEILA