Fjárlagafrumvarpið „svik við kjósendur“

Ágúst Ólaf­ur Ágústs­son þingmaður, Logi Már Ein­ars­son formaður og Odd­ný Harðardótt­ir þing­flokks­formaður kynntu gagnrýni flokksins á fjárlagafrumvarpið á blaðamannafundi í morgun. Mynd: mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Samfylkingin gagnrýnir harðlega fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. í fréttatilkynningu þingflokks Samfylkingarinnar segir að fjárlagafrumvarpið beri vott um svik við kjósendur og algjört metnaðarleysi í velferðarmálum.  Einnig segir að langflestir hagsmunaaðilar sem komu á fund fjárlaganefndarinnar hafi lýst yfir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið og að hvorku sé ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins né ráðist í nauðsynlega tekjuöflun. „Þegar þetta fjárlagafrumvarp er borið saman við fjárlagafrumvarp fyrri ríkisstjórnar sem Vinstri græn kölluðu „hægri sveltistefnu“ kemur í ljós að einungis er gerð 2% breyting á milli frumvarpa. Í meðförum fjárlaganefndar tók frumvarpið aðeins 0,2% breytingum og því er fjárlagafrumvarp Katrínar Jakobsdóttur eingöngu 2,2% frábrugðið fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar,“ segir ennfremur.

 

Helsta gagnrýni og breytingartillögur Samfylkingarinnar eru eftirfarandi:

 

  • Því miður er ekkert tekið á misskiptingunni í samfélaginu í gegnum skattkerfið. Núna eiga 5% af ríkustu landsmönnum jafnmikið af hreinum eignum og hin 95% landsmanna.
  • Engar viðbótarfjárveitingar eru settar í barnabætur, vaxtabætur, húsnæðisstyrk, fæðingarorlof og húsnæðismál. Samfylkingin leggur til að 5 milljarðar verði settir í barna- og vaxtabótakerfið og 2 milljarðar verði settir í stofnframlög til almennrar íbúða
  • Sveltistefna gagnvart heilbrigðiskerfinu heldur áfram, en nú í boði Vinstri grænna. Allir forsvarsmenn heilbrigðisstofnana sem komu á fund fjárlaganefndar lýstu yfir mikilli óánægju með fjárlagafrumvarpið. Enn vantar Landspítalann tæplega 3 milljarða einungis til að halda í horfinu og að óbreyttu mun þjónusta spítalans versna. Heilbrigðisstofnanir úti á landi fá minna en helming af því sem þær óskuðu eftir svo hægt væri að tryggja óbreytta starfsemi. Þá fá hjúkrunarheimili beinlínis lækkun á milli ára. Samfylkingin leggur því til að 3 milljarðar renni til Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, 500 milljónir til heilbrigðisstofnanna og 400 milljónir til heilsugæslunnar.
  • Bæði landsamtök eldri borgara og öryrkja lýsa miklum vonbrigðum með frumvarpið. Samfylkingin leggur því til að í málefni aldraðra verði settur 1,5 milljarður aukalega og 3 milljarðar fari til öryrkja.
  • Framhaldsskólastigið býr enn við talsverða fjárhagserfiðleika og leggur Samfylkingin til að það fái tvöfalt meira en það sem ríkisstjórnin leggur til eða 400 milljónir króna.
  • Samfylkingin leggur til 50% hækkun á því nýja fjármagni sem ríkisstjórnin og fjárlaganefnd leggja til samgöngumála eða 1 milljarð kr.
  • Samfylkingin leggur til að einn milljarður fari í stórsókn gegn kynbundnu ofbeldi og fjölgun lögreglumanna en einungis einn fimmti þeirra fjárhæðar er að finna í fjárlagafrumvarpinu.
  • Stjórnarflokkunum verður gefið tækifæri til að afnema bókaskattinn og liggur tillaga þess efnis fyrir þinginu í boði Samfylkingarinnar.
DEILA