Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur samþykkt fjárhagsáætlun næsta árs að lokinni síðari umræðu í sveitarstjórn. Gert er ráð fyrir að heildartekjur A og B hluta verði 310 milljónir kr. Heildarútgjöld verði 254 milljónir kr. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði verður 43 milljónir kr. og eftir fjármagnsliði verður 39 milljóna kr. rekstrarafgangur. Skuldahlutfall samstæðu Súðavíkuhrepps verður 29% og áætlað að framkvæma fyrir 12 milljónir kr. á næsta ári.

Gjaldskrá sveitarfélagsins hækkar um 2,7% í samræmi við þjóðhagsspá Hagstofunnar.

Útsvar verður hækkað úr 14,48% í lögbundið hámarksútsvar sem er 14,52%. Í tilkynningu Súðavíkurhrepps segir að þegar sveitarfélögin tóku við málefnum fatlaðra frá ríkinu var hámarksútsvar hækkað úr 14,48% í 14,52% til að fjármagna aukin útgjöld sveitarfélaga vegna málaflokksins. Þessi hækkun hefur hins vegar ekki verið framkvæmd Súðavíkurhreppi, og útsvarið haldist óbreytt í 14,48%.

„Nú eru breytingar framundan hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem kynntar voru á síðustu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, þar sem sveitarfélög sem ekki eru með hámarks útsvar munu verða fyrir skerðingu á framlögum sjóðsins næstkomandi árum. Með hliðsjón af hlutfalli Jöfnunarsjóðs af heildartekjum sveitarfélagsins taldi sveitarstjórn það vera nauðsynlegt á þessum tímapunkti, með hliðsjón af ofangreindu, að hækka útsvar í Súðavíkurhreppi í 14,52%“ segir í tilkynningunni.

smari@bb.is

DEILA