Fjárhagsáætlun afgreidd í bæjarstjórn

Samstæða Ísafjarðarbæjar, A og B hluti bæjarsjóðs, skilar 36 milljóna króna afgangi á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun sem hefur verið samþykkt í bæjarstjórn. Er það sambærileg afkoma og var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun þessa árs en umtalsvert lakara en 225 milljóna króna afgangur sem varð af rekstrinum árið 2016. Sé horft á rekstur A hluta, sem er sá hluti rekstursins sem er rekinn fyrir skattfé, skilar hann 46 milljóna króna tapi á næsta ári en jákvæð niðurstaða B hluta bæjarsjóðs, sem eru stofnanir eins og Ísafjarðarhöfn sem eru reknar fyrir eigin tekjur, hífir afkomuna upp.

Gert er ráð fyrir að útsvarsstofn hækki um 8% milli áranna 2017 og 2018. Útsvarsgreiðslur fyrir árið 2018 eru áætlaðar 2.064 milljónir kr. samanborið við 1.941 milljónir kr. í áætlun 2017.

Í áætlun 2017 var gert ráð fyrir að íbúum Ísafjarðarbæjar myndi fjölga um 1% og yrðu 3.650 í árslok 2017. Í byrjun desember hafði íbúum fjölgað um 2,9% frá árslokum 2016. Í fjárhagsáætlun 2018 er enn gert ráð fyrir að íbúum muni fjölga um 1% á árinu 2018 frá deginum í dag og verði 3.751 í lok árs.

DEILA