Endurvinnum álið í sprittkertunum

Endurvinnsluátakinu „Gefum jólaljósum lengra líf – endurvinnum álið í sprittkertunum“ var ýtt úr vör í byrjun vikunnar af Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra, sem tók á móti nokkrum af aðstandendum átaksins í umhverfisráðuneytinu.

Tilgangurinn með átakinu er að fá fjölskyldur til að skila álinu í sprittkertum til endurvinnslu og efla vitund Íslendinga um mikilvægi þess að endurvinna það ál sem fellur til á heimilum og hjá fyrirtækjum.

Ætla má að á ári hverju séu notuð um 3 milljónir sprittkerta hér á landi. Til að setja hlutina í samhengi, þá dugar álið úr þremur sprittkertum í eina drykkjardós og einungis þarf þúsund sprittkerti til að búa til reiðhjól.

Skila má sprittkertum á um 90 endurvinnslu- og móttökustöðvar um allt land.

Þá gefst fólki kostur á að setja kertin í grænu tunnurnar sem eru í boði hjá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu.

Að átakinu standa Endurvinnslan, Fura málmendurvinnsla, Gámaþjónustan, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samál – Samtök álframleiðenda, Samtök iðnaðarins og Sorpa.

Ráðist hefur verið í sambærileg átaksverkefni í Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og á Írlandi og er þetta tilraunaverkefni hér á landi. Álið sem safnast verður pressað hjá Furu og endurunnið hér á landi, en nánar verður tilkynnt um útfærslu þess þegar söfnunarátakinu lýkur í lok janúar.

Ál hefur þá sérstöðu að það má nýta aftur og aftur án þess að það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Einungis þarf um 5% af orkunni sem fór upphaflega í að framleiða álið til að endurvinna það. Það þýðir að mikil verðmæti leysast úr læðingi við endurvinnslu álsins og færir það stoðir undir rekstur endurvinnslufyrirtækja víða um Evrópu.

Þá dregur orkusparnaðurinn við endurvinnslu áls verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, enda verður almennt mest losun frá orkuvinnslunni við framleiðslu áls í heiminum.

Átakið stendur til 31. janúar næstkomandi.

bryndis@bb.is

DEILA