Vinna að markaðsleyfi í Suður-Kóreu

Sendinefnd lyfjaeftirlitsins í Suður-Kóreu með starfsfólki Kerecis.

Fjögurra manna sendinefnd frá lyfjaeftirlitinu í Suður-Kóreu heimsótti ísfirska fyrirtækið Kerecis fyrir helgi. Kerecis vinnur nú að því að fá markaðleyfi í Suður Kóreu fyrir aðalvöru fyrirtækisins, sárastoðefnið Kerecis Omega3 Wound sem er unnið úr fiskroði. Einn liður í markaðsleyfi er úttekt lyfjaeftirlitsins. Dóra Hlín Gísladóttir situr í framkvæmdastjórn Kerecis og hún segir sykursýki vera mikið vandamál í Suður-Kóreu og ein afleiðing sjúkdómsins eru þrálát sár. „Við vonum við að ísfirskt roð geti orðið að liði og vonandi hjálpað fólki í vanda,“ segir Dóra Hlín. Hún áætlar að sala hefjist í Suður-Kóreu á næsta ári og gerir fastlega ráð fyrir góðum viðtökum

Sárastoðefni Kerecis er til sölu í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Svíþjóð og að sjálfsögðu á Íslandi.

Nýverið fékk fyrirtækið markaðsleyfi fyrir vöruna í Taílandi og auk þess að vinna að markaðsleyfi í Suður-Kóreu er unnið að markaðsleyfi í Taívan og fyrirtækið því í sókn í suðaustur og austur Asíu.

smari@bb.is

DEILA