Vigdís Grímsdóttir hlýtur Jónasarverðlaunin

Vigdís í kennslustofunni í Finnbogastaðaskóla. Mynd: mbl.is / Golli

Vigdís Grímsdóttir hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarráðherra afhenti verðlaunin í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Í umsögn dómnefndar segir að Vigdís hafi haft mótandi áhrif á samtíð og menningu Íslendinga. Með rödd sinni, stundum ögrandi og tilfinningaþrunginni, stundum mildri og sefandi, hafi hún hrifið fólk með sér og fengið til að takast á við krefjandi spurningar um manneskjuna og þá veröld sem við lifum og hrærumst í. Hún knúi okkur til að líta í eigin barm eins og hún gerir sjálf í skáldævisögunni Dísusögu þar sem hún hlífir sér hvergi. Þá segir að Vígdís hafi, hvar sem hún er stödd: á Kleppsvegi, í Norðurfirði eða Trékyllisvík, hreyft við lesendum, ekki aðeins hér heima, heldur víða um lönd, með sínum seiðmagnaða frásagnarmáta.

Vigdís hefur síðustu ár verið með annan fótinn í Árneshreppi og setið þar við skriftir og einnig sinnt kennslu við Finnbogastaðaskóla.

smari@bb.is

DEILA