Vestri efstur eftir aðra umferð Íslandsmótsins

Mynd: Vestri.is

Sameiginlegt lið Vestra og Skallagríms í 10. flokki drengja tryggði sér efsta sætið í A-riðli í annarri umferð Íslandsmóts KKÍ sem fram fór á Torfnesi um helgina. Gestirnir voru KR, Stjarnan, Fjölnir og Keflavík en þeir síðastnefndu féllu aftur niður í B-riðil eftir tap í öllum sínum leikjum. Þrjú efstu liðin, Vestramenn, KR og Stjarnan, eru svipuð að styrkleika og unnu öll þrjá leiki hvert. Innbyrðis viðureign Vestra og Stjörnunnar réði því að Vestramenn hömpuðu að endingu fyrsta sætinu.

Leikur Vestramanna og Stjörnunnar var sérstakur að því leyti að skorið var afar lágt enda léku bæði liðin firnasterka vörn sem reyndi verulega á alla leikmenn. Leikurinn var í járnum lengi framan af en í fjórða leikhluta fóru Vestramenn að ná betur fráköstum og sigldu þannig fram úr sterkum Stjörnumönnum, lokatölur 33-23.

Í leiknum gegn Fjölni var eins og okkar menn teldu að um auðvelda viðureign yrði að ræða í byrjun. Svo reyndist þó ekki vera enda var staðan nokkuð jöfn eftir fyrsta leikhluta og urðu Vestramenn því að girða sig í brók og bæta verulega í. Það tókst og sigurinn var þeirra, 56-47.

Viðureignin við Keflvíkinga var minni þrekraun og höfðu Vestramenn sigur, 78-41. Keflavík hafði komið upp úr B-riðli eftir fyrstu umferð og leikur því þar á ný í þriðju umferð.

Leikurinn við KR fór hægt af stað hjá okkar mönnum og höfðu KR-ingar 10 stiga forystu í hálfleik. Vestramenn náðu þó að saxa verulega á þegar leið á leikinn og voru þremur stigum undir eftir þriðja leikhluta. Segja má að baráttan um fráköstin hafi gert út um leikinn fyrir Vestramönnum en KR hafði mikla yfirburði í leiknum í þeirri deild. Það var þó á endanum aðeins eitt stig sem skildi á milli liðanna, KR 57- Vestramenn 56.

Fjölliðamót helgarinnar er það sterkasta sem haldið hefur verið í körfuknattleik á Ísafirði í heil 12 ár. Alls eru 23 lið skráð til keppni í 10. flokki drengja og keppa þau í fimm riðlum. Afrek Vestramanna er því verulegt og verður spennandi að fylgjast með framgangi þeirra í vetur.

Alls eru spilaðar fjórar umferðir og fara fjögur efstu liðin í síðustu umferðinni í úrslitakeppni sem fram fer um miðjan maí. Þriðja umferð Íslandsmótsins verður leikin 27.-28. janúar og þá takast Vestramenn aftur á við KR, Stjörnuna og Fjölni auk þess sem Valur bætist í hópinn, en liðið féll niður í B-riðil í fyrstu umferð en vann sig svo aftur upp um helgina.

 

þetta kemur fram á vef Vestra

bryndis@bb.is

DEILA