Vestfirðir fegurstir

Ketildalir í Arnarfirði. Mynd: Mats Wibe Lund.

Vísir fékk vel valinn hóp álitsgjafa til að velja fallegasta stað landsins. Margir álitsgjafanna áttu í erfiðleikum með að gera upp hug sinn á meðan aðrir þurftu varla að hugsa sig um. Vestfirðir heilluðu flesta álitsgjafanna, en Ásbyrgi, ein helsta perla Norðurlands, fylgir fast á hæla fjarðanna og í þriðja sæti kom hinn stórbrotni foss Dynjandi í Arnarfirði.

Þetta höfðu álitsgjafarnir að segja um Vestfirði:

„Náttúran, tenging við sjóinn, fjölbreytileikinn, mannlífið, tiltölulega ósnortið.“

„Ótrúlega fallegt að fljúga þar yfir og sjá fjöllin.“

„Að keyra eitthvað af þessum vegum og uppá heiði og sjá yfir alla firðina. Það er engu líkt.“

„Vestfirðir eru fallegasta svæði Íslands. Fjöllin umvefjandi fögur, hlý en einnig ógnvekjandi með sínu grjóthruni og snjóflóðum. Þar að auki hafið allt um kring. Þessi blanda er engu lík.“

„Það er erfitt að velja einhvern einn stað eða bæjarfélag á Vestfjörðum þegar kemur að fegurðarsamkeppni en landshlutinn er ein stór náttúruperla með sínu tignarlegu fjöllum og fjörðum. Suðureyri stal reyndar hjarta mínu í sumar svo ég nefni þann stað framar öðrum. Mögnuð orka þar!“

„Ég var orðin fullorðin þegar ég kom fyrst á Vestfirði og það var ást við fyrstu sýn. Náttúrufegurðin hvert sem litið er, fangar mann gjörsamlega. Rauðasandur, Látrabjarg, Skor, Þingeyri, Flateyri, Ísafjörður, hver staðurinn öðrum fallegri, umvefjandi náttúran og krafturinn.“

Um Dynjanda sögðu þeir:

„Dynjandi er alveg ótrúlegur foss, hann er hár, vatnsmikill, tignarlegur, ógurlegur, margbreytilegur og guðdómlega fallegur. Ég hef aldrei komið að Dynjanda án þess að fyllast auðmýkt gagnvart náttúrunni. Þess vegna skil ég ekki að hann sé ekki umsetinn af ferðamönnum, innlendum sem erlendum. En það er eins og lega hans, á útnára Íslands, Vestfjarðakjálkanum, geri það að verkum að fáir gefa sér tíma til að skoða hann náið. Það eru mikil mistök því þessi foss hefur vinningin margfalt yfir Gullfoss, Dettifoss og hvað þeir heita nú allir.“

„Þegar þú kemur að Dynjanda kemur þú að honum neðan frá, þú horfir sem sagt upp fossinn en ekki niður hann. En það sem Dynjandi býður upp á sem fæstir aðrir fossar gera er margbreytilega aðkomu því frá botninum getur þú unnið þig upp. Það eru um það bil 5 stallar sem auðvelt er að færa sig upp á fótgangandi og frá hverjum þeirra sérðu fossinn í algjörlega nýju ljósi. Það er eins og þú sért að skoða nýjan foss í hvert sinn. Stundum er hann ógurlegur, stundum mildur, stundum bjartur og stundum dimmur. Ég þreytist ekki á að skoða þennan foss. Algjört draumagull.“

„Flottasti foss á Íslandi. Hér fattar maður hve lítill maður í raun er. Magnaður staður.“

„Þvílík orka, þvílík fegurð, þvílík stærð!“

smari@bb.is

DEILA