Verulegir annmarkar á kosningu kjörnefndar

Patreksfjarðarkirkja.

Biskup Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að verulegir annmarkar hafi verið á kosningu kjörnefndar Patreksfjarðarprestakalls sem hafði til meðferðar umsóknir um stöðu sóknarprests. Í ljós hefur komið að fjórir fulltrúar af ellefu hafi ekki verið kosnir á almennum safnaðarfundum eins og starfsreglur kveða á um heldur hafi þeir verið tilnefndir á sóknarnefndarfundum. Biskup álítur að þessi annmarki í meðferð málsins kunni geta ógilt skipun sóknarprests. Þess vegna hefur biskup ákveðið að auglýsa embætti sóknarprests í Patreksfjarðarprestakalli að nýju.

Á vef Vestfjarðaprófastsdæmis segir að kjörnefnd Patreksfjarðarprestkalls hafi komið saman til fundar fimmtudaginn 26. október. Eftir að hafa farið yfir umsóknir og skýrslu matsnefndar og rætt við umsækjendurna tvo var kosið. Niðurstöður kjörsins og fundargerð voru send biskupi í tölvupósti.

Búist hafði verið við að biskup myndi afgreiða málið föstudaginn 27. október og þá yrði kunngjört hver yrði skipaður næsti sóknarprestur á Patreksfirði. Það gerðist ekki meðal annars vegna þess að upp kom vafi um hvort allir kjörnefndarfulltrúar væru réttilega kosnir. Þessi vafi er tilkominn vegna kærumála í Dómkirkjusókninni í Reykjavík. Í starfsreglum, sem Kirkjuþing samþykkti, er kveðið á um að fulltrúar í kjörnefnd skuli kosnir á aðalsafnaðarfundi eða almennum safnaðarfundi. Svo virðist sem það sé ekki lögmætt að velja fulltrúa í kjörnefnd á fundi sóknarnefndar.

smari@bb.is

DEILA