Veiðigjaldið 9 prósent af aflaverðmæti

Á vef Landssambands smábátaeigenda (LS) er bent á að eftir hækkun veiðigjalda um síðustu kvótaáramót eru veiðigöld félagsmanna um 9 prósent af aflaverðmæti. Fyrsti gjalddagi eftir hækkunina var nú þann 1. nóvember og er sá reikningur fyrir afla sem veiddist í september. Veiðgjöld í ýsu og þorski, sem er uppistaðan í afla smábáta, hækkuðu um 107 til 127 prósent milli ára.

Í frétt á vef LS segir að sambandið hafi talað fyrir daufum eyrum þegar vakin er athygli á rúmlega tvöföldun veiðigjalda.

„Alþingismenn virtust og virðast þó hafa á hreinu að eitthvað þarf að gera til að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir.  LS hefur bent á leið sem hægt er að fara og væntir þess að nýkjörnir alþingismenn láti málið til sín taka strax og þingstörf hefjast,“ segir á vef LS.

Í fréttinni er haft eftir ónafngreindum smábátasjómönnum að hækkunin sé „brjálæði“ og einhverjar útgerðir eru við það að gefast upp. Einn sjómaðurinn grípur til líkinga þegar hann tjáir sig um hækkunina: „Við erum 2 um borð, nú hefur fjölgað um einn og hálfan háseta sem ekki láta sjá sig, en þiggja fulla greiðslu.“

DEILA