Söfnunarátak UN Women

UN Women á Íslandi hefur söfnunarátak fyrir konur og stúlkur á flótta frá Sýrlandi. Eliza Reid, forsetafrú Íslands og  Eva María Jónsdóttir, verndari UN Women á Íslandi heimsóttu griðastaði UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Á griðastöðunum eru konur öruggar, fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum. Ennfremur segir að konur og stúlkur í Zaatari flóttamannabúðunum búi við grimman veruleika. Flestar konur í búðunum eru margra barna mæður sem sárlega þurfa vernd, öryggi og stuðning til að koma undir sig fótunum á ný.

Til að styrkja átakið er sent SMS í númerið 1900 með textanum KONUR, þá dragast 1.490 krónur af símareikningnum.

UN Women benda á neðangreindar staðreyndir:

  • 1 af hverjum 3 konum í Zaatari búðunum hefur verið gift á barnsaldri
  • Konur og stúlkur í Zaatari eru berskjaldaðar fyrir ofbeldi
  • Fimmta hver kona í Zaatari búðunum er fyrirvinna fjölskyldunnar
  • Atvinnutækifæri fyrir konur í Zaatari eru sárafá

Um 80 þúsund Sýrlendingar dvelja í Zaatari eftir að hafa flúið stríðsátök og ofbeldi í heimalandi sínu. Búðirnar eru þær næststærstu í heiminum og jafnframt eru þær fjórða fjölmennasta borg Jórdaníu.

Konur og börn eru um 80% íbúa í Zaatari og eiga erfitt uppdráttar í búðunum. Það er staðreynd að konur og stúlkur á flótta eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi. Flestar konur í Zaatari hafa orðið fyrir skelfilegum áföllum; misst börn sín, maka og ástvini og glíma við áfallastreituröskun, þunglyndi og einangrun. Margar þeirra eru ekkjur og einstæðar mæður.

Til að sporna við ofbeldinu, aukningu barnahjónabanda og fátækt í flóttamannabúðunum starfrækir UN Women þrjá griðastaði fyrir konur og stúlkur. Þar eru konur og stúlkur óhultar fyrir ofbeldi, fá atvinnutækifæri, menntun og börnin daggæslu, þar fá konur einnig sálrænan stuðning eftir áföll og ofbeldi. Þökk sé griðastöðum UN Women geta konur lifað með reisn og virðingu í erfiðum aðstæðum.

Aðsóknin í griðastaði UN Women er gríðarleg og eru hundruð kvenna eru á biðlista eftir að komast að. Til að byggja upp griðastaði UN Women þarf aukið fjármagn og þess vegna þurfa konur og stúlkur í Zaatari á þinni hjálp að halda!

Alvogen er bakhjarl herferðar UN Women á Íslandi og gerði samtökunum kleift að heimsækja griðastaði UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum.

bryndis@bb.is

DEILA