Óvenju hlýtt í október

Það eru spennandi og flott verkefni sem íbúar Bolungarvíkur geta valið á milli næstu daga. Mynd: SJS.

Tíðarfar var hagstætt í október. Óvenju hlýtt var og hiti vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Fremur þurrt var á vestanverðu landinu en úrkomumeira á Austfjörðum og Suðausturlandi. Vindur var hægur. Þetta kemur fram í veðurfarsyfirliti Veðurstofunnar. Meðalhiti í Bolungarvík mældist 6,5 stig, 3,0 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 2,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Reykjavík mældist meðalhiti 6,9 stig sem 2,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 1,8 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 6,1 stig, 3,1 stigi ofan meðallags 1961 til 1990 og 2,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi og á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 6,7 stig.

Október var óvenju hlýr á öllu landinu, þó ekki eins hlýr og október í fyrra. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest í Svartárkoti, +2,6 stig. Hitavikin voru einna minnst á Suðurlandi. Kaldast var í Skaftafelli þar sem hiti var +0.8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma var fremur lítil í október, sér í lagi á vestanverðu landinu sem er nokkuð óvenjulegt miðað við hlýindin. Úrkomumest var á Austfjörðum og á Suðausturlandi.

Fyrstu tíu mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar, maí, september og október voru sérlega hlýir.

smari@bb.is

DEILA