Lestrarfélagið fyrr og nú

Bókasafnið í gamla barnaskólanum að Sæbóli í Aðalvík.

Í Vísindaporti föstudagsins í Háskólasetri Vestfjarða verður fjallað um lestrarfélög í Sléttuhreppi fyrr og nú. Andrea Harðardóttir sagnfræðingur og Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði, flytja erindið saman en þær eru báðar ættaðar frá Horni í Sléttuhreppi og hafa dvalist þar mikið í gegnum tíðina.

Undir lok 19. aldar var lestrarfélag stofnað í Sléttuhreppi. Starfsemin virðist hafa lognast út af fljótlega en upp úr aldamótunum 1900 var það endureist og starfaði á meðan að hreppurinn var í byggð. Sumarið 2016 var sett upp bókasafn í Gamla barnaskólanum að Sæbóli í Aðalvík. Tilgangurinn með því var m.a. sá að endurvekja starfssemi gamla lestrarfélagsins að einhverju leyti. Í erindinu verður sagt frá því því hvernig sú hugmynd kom upp að endurreisa lestrarfélagið og hvert markmiðið með því sé.

Jóna Benediktsdóttir er aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Ísafirði en starfar í vetur sem skólastjóri. Hún er ættuð frá Horni í Sléttuhreppi en eiginmaður hennar, Henrý Bæringsson frá Sæbóli í Aðalvík.  Á sumrin dvelja þau iðulega á Sæbóli eða á Horni í sumarhúsum fjölskyldna sinna.

Andrea S. Harðardóttir er sagnfræðingur og sögukennari við Menntaskólann á Ísafirði. Hún er ættuð frá Horni í Sléttuhreppi og dvelur þar reglulega á sumrin í sumarhúsi fjölskyldunnar.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs og eru allir velkomnir.

DEILA