Fjárgirðing og jafnvel göngustígur og reiðvegur

Mynd: Ævar Einarsson Hvas

Í hlíðinni fyrir ofan Suðureyri er verið að setja upp nýja fjárgirðingu en lausaganga búfjár hefur verið talsvert vandamál á Suðureyri, sem og í öðrum þéttbýliskjörnum í ár og að sögn Brynjars Þórs Jónssonar sviðsstjóra umhverfis og eignasviðs verður vandað til verka.

Brynjar segir að uppdráttur af mögulegum göngustíg/þjónustustíg við fjárgirðinguna hafi farið fyrir fund umhverfisnefndar 7. nóvember og var þaðan vísað til umsagnar hverfisráðs Súgandafjarðar. Samþykki hverfisráð Súgandafjarðar að meðfram fjárgirðingunni verði gerður göngustígur, verður gengið þannig frá umhverfi fjárgirðingar að úr verði góður göngu/þjónustustígur sem nýtist íbúum til útiveru og þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar til viðhalds á fjárgirðingu.

Í tilfelli þessa mögulega stígs er um að ræða hliðrun ofar í hlíðina miðað við legu stígs sem sýndur er á Aðalskipulagsuppdrætti.  Í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar kemur fram að lega gönguleiða sé ónákvæm á skipulagsuppdrætti og nákvæm lega skuli ákvörðuð í deiliskipulagi eða á framkvæmdastigi.  Mögulega er þörf á óverulegri breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar þar sem nákvæm lega stígsins er færð inn á uppdrátt og segir Brynjar að það verði metið ef hverfisráði Súgandafjarðar hugnist lega stígsins.

„Hugnist hverfisráði Súgandafjarðar ekki lega stígs á umræddu svæði verður gengið frá eftir girðingarvinnuna þannig að ekki verði varanleg ummerki“.

bryndis@bb.is

DEILA