Búið að grafa 11,1 prósent af göngunum

Í síðustu viku voru grafnir 60,6 m í Dýrafjarðargöngum. Heildarlengd ganganna í lok viku 47 var 589,9 m sem er 11,1% af heildarlengd ganganna. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var farið í gegnum nokkuð blautt svæði í vikunni en að öðru leyti voru göngin nokkuð þurr og bergið var að springa þokkalega.

Fyrri part vikunnar var efni keyrt í vegfyllingu og nýi vegurinn tengdur við eldri þjóðveg.  Eftir það var öllu efni keyrt á haugsvæði.

Á meðfylgjandi mynd er verið að þvo berg áður en steypu er sprautað á það og svo er verið að hlaða sprengiefni. Vegna vatns sem kemur úr borholum er notast við plaströr sem eru fyllt með sprengiefni. Rörunum er stungið í holurnar og svo er sett lítil dýnamítstúpa með hvellettu í endann til að koma sprengingunni af stað.

smari@bb.is

DEILA