Bolvíkingar þurfa að taka sér tak

Bolungarvík kom illa út úr könnun Samgöngustofu og Landsbjargar á öryggi barna í bílum. Ísfirðingar voru aftur á móti til fyrirmyndar. Könnunin var gerð við 56 leikskóla í 29 þéttbýliskjörnum víða um land og var búnaður hjá 2.060 börnum kannaður. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 32 ár. Í Bolungarvík voru 83% barna í réttum öryggisbúnaði, fjögur prósent barna voru einungis í bílbelti og 13 prósent í engum öryggisbúnaði. Á Ísafirði voru 100 prósent barna í réttum búnaði.

Samgöngustofa og Landsbjörg benda á að þegar valinn er öryggisbúnaður er mikilvægt að gefa sér góðan tíma, skoða heimasíður og kynna sér úrval verslana. Búnaðurinn þarf bæði að passa barninu og bílnum. Hægt er að fá upplýsingar á heimasíðum framleiðenda um hvort búnaðurinn passi í tiltekinn bíl eða í bæklingi sem fylgir honum. Þegar öryggisbúnaður er festur í bíl er nauðsynlegt að það sé gert á réttan hátt. Þótt barn sé í öryggisbúnaði getur það slasast alvarlega eða látið lífið í slysi ef búnaðurinn er ekki rétt festur. Því er mikilvægt að lesa vandlega allar leiðbeiningar sem fylgja bílnum og barnabílstólnum.

smari@bb.is

DEILA