Bleikar og bláar heyrúllur skiluðu 1,2 milljónum

Söfnunarátakið „Bleikar og bláar heyrúllur“ sem bændur, dreifingaraðilar og framleiðandi heyrúlluplasts standa að, skilaði 1,2 milljónum króna til Krabbameinsfélagsins í ár. Á síðasta ári slógu „Bleikar heyrúllur“ í gegn og var ætlað að vekja athygli á árvekni um brjóstakrabbamein. Í sumar bættust bláar heyrúllur við og skreyttu tún bænda víða um land með það að markmiði að minna á árvekni um blöðruhálskrabbamein.

Sænski framleiðandinn Trioplast, innlendir dreifingaraðilar og bændur, lögðu samtals fram andvirði þriggja evra af hverri seldri bleikri eða blárri plastrúllu sem hver dugir á 26 bleikar heyrúllur á túni ef vafið er sexfalt. Afraksturinn rennur til Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og rannsókna á brjóstakrabbameini og blöðruhálskirtilskrabbameini sem eru algengustu krabbamein kvenna og karla.

Hugmyndin að átakinu er komin frá viðskiptavini Trioplast á Nýja Sjálandi og í framhaldinu tryggði fyrirtækið að bleiki liturinn stæðist ítrustu kröfur bænda. Nú hafa bleiku heyrúllurnar einnig hafið innreið sína í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Sviss, Bretlandi og Írlandi, auk fleiri landa, og vekja alls staðar mikla athygli.

smari@bb.is

DEILA