Ársrit Sögufélags Ísfirðinga komið út

Út er komið 55. ársrit Sögufélags Vestfirðinga og kennir þar ýmissa grasa. Í inngangi ritstjóranna kemur fram að ársritið spanni að þessu sinni tvö ár, 2016-2017 en því miður hafi ársritið ekki staðið fyllilega undir nafni. Fyrsta ársritið kom út árið 1956, fyrir sextíu og einu ári.

Ritstjórar eru þeir Jón Þ. Þór og Veturliði Óskarsson.

Kristján Pálsson fjallar um sögu Hnífsdals frá landnámi til 19. aldar, um Þórólf Brækir og hugsanlegan misskilning um Skálavík og Hnífsdal. Þar má líka lesa um átök Sólveigar Guðmundsdóttur og Björns hirðstjóra, deilur Magnúsar Prúða í Ögri og Árna Gíslasonar lögmanns og um fyrsta ættlegg Hnífsdalsættar. Heilsufar og trúarlíf Hnífsdælinga er líka líst og haft eftir Eggerti og Bjarna. Greinin í ársritinu er hluti af meistararitgerð Kristjáns í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Bragi Bergsson fjallar um Simsongarð og um líf og störf Martinusar Simson en hann hóf ræktun garðsins árið 1926.

Sigurður Pétursson fjallar um Þjóðminningarhátíð Ísfirðinga en í lok 19. aldar tóku Reykvíkingar að halda Þjóðminningardag þann 2. ágúst og tóku fleiri landsmenn það upp, þar á meðal Ísfirðingar. Sá dagur „týndist“ þegar 17. júní var að hátíðisdegi.

Birt er bréf um skólamál í Ísafjarðarsýslu sem sent var blaðinu Norðanfari árið 1881, bréfritari lýsir þar skoðun sinni á barnaskólum og hvetur frekar til að byggðir sem verði upp unglingaskólar.

Að lokum er í ritinu minningargrein um Karl Olgeirsson sem birtist í Vesturlandi í febrúar 1956.

Sögufélagið var stofnað árið 1953 og er tilgangur félagsins meðal annars að safna, varðveita og kynna hverskonar fróðleik um Ísafjarðarsýslu að fornu og nýju, um héraðið og kynna íbúa þess og gefa út rit um þetta efni, ásamt annarri útgáfustarfsemi. Formaður félagins er Guðfinna M. Hreiðarsdóttir.

bryndis@bb.is

DEILA