Vinstri græn framtíð á Vestfjörðum?

Halldór Jónsson.

Á undanförnum mánuðum hafa nokkur mikilvæg framfaramál byggðar á Vestfjörðum verið mjög í brennidepli. Ekki vegna þess að þau séu draumórar einir heldur vegna þess að þau eru öll komin,  því sem næst,  til framkvæmda. En þá rekast heimamenn á þröskulda. Þröskulda sem ekki hafa verið til staðar þegar innviðir og atvinnulíf á öðrum stöðum hefur byggst upp. Vestfirðingar héldu kröftugan íbúafund á haustdögum sem staðfesti samstöðu þeirra um kröfuna um greiðan framgang þessara framfaramála.

Þrátt fyrir þröskuldana er sem betur fer ekki svo að engin framfaraskref hafi verið stigin á undanförnum misserum. Langþráður draumur rættist í haust þegar Jón Gunnarsson samgönguráðherra hóf formlega  gerð jarðaganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar með eftirminnilegri sprengingu.

Ljósleiðaravæðing byggðanna undir forystu Haraldar Benediktssonar alþingismanns hefur gengið vel og fært íbúa Vestfjarða nær umheiminum.

Atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum hefur tekið stórstígum breytingum með tilkomu framsækinna fyrirtækja í laxeldi og íbúum hefur fjölgað í kjölfarið.

Stjórnvöld í landinu hafa afgerandi áhrif á framgang mjög margra mála sem til framfara horfa og því mikilvægt í aðdraganda alþingiskosninga að kjósendur kynni sér vandlega verk og skoðanir þeirra er bjóða sig fram til þjónustu við íbúa.

Í tuttugu ár hefur gerð vegar um Teigsskóg verið í pattstöðu í óskiljanlegu skipulagsferli. Ferli sem fram að þessu hefur ekki stöðvað viðlíka framkvæmdir í öðrum landshlutum. Það var því mikið gleðiefni þegar flestir þingmenn Norðvesturkjördæmis undir forystu Teits Björns Einarssonar lögðu fram tillögu á Alþingi þar sem tryggja á þessar löngu tímabæru framkvæmdir. Þar vantaði hins vegar nafn eins þingmanns, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Af umræðum má ráða að hún vill halda áfram því skipulagsferli sem nú hefur staðið í tvo áratugi og var stöðvað á sínum tíma af flokksmönnum hennar með Svandísi Svavarsdóttur í fararbroddi.

Skipulagsferli Hvalárvirkjunar, sem um langt árabil hefur ágreiningslaust verið í nýtingarflokki, er á lokastigi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra hefur með afdráttarlausum hætti lýst stuðningi sínum og annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í  Norðvesturkjördæmi við þá virkjun. Af einhverjum ástæðum hefur þingmaður VG í kjördæminu ekki lýst sömu skoðun sinni í kosningabaráttunni og Bjarni Jónsson varaþingmaður flokksins og meðframbjóðandi Lilju Rafneyjar í kjördæminu vildi ekki lýsa stuðningi sínum við virkjunina á framboðsfundi rásar 2.

Fyrirhugað laxeldi í Ísafjarðardjúpi er í ákveðinni pattstöðu eftir að fram kom sú skoðun ráðherra Viðreisnar að fara ætti í einu og öllu eftir áhættumati Hafrannsóknarstofnunar. Frambjóðendur  Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu hafa hins vegar lagt þunga áherslu á að eldi verði að veruleika í Djúpinu með því að ráðast í þær mótvægisaðgerðir sem eldisfyrirtækin hafa lagt til. Frambjóðandi VG Bjarni Jónsson hefur með fyrirvörum sínum slegið sjókvíaeldi útaf borðinu.

Ef marka má skoðanakannanir mun VG fá þrjá menn kjörna í Norðvesturkjördæmi og Lilja Rafney verður fyrsti þingmaður kjördæmisins í stað Haraldar Benediktssonar. Samkvæmt þeim spám fellur Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins af þingi.

Áður en að kjördegi kemur þurfa kjósendur og þeir sem áhuga hafa á blómlegri byggð á Vestfjörðum að velta fyrir sér nokkrum spurningum. Til dæmis þessum:

Er líklegt að ríkisstjórn undir forystu VG breyti fyrri ákvörðunum og skoðunum ráðherra sinna varðandi Teigsskóg?

Veglína Dynjandisheiðar er nú í skipulagsferli. Er líklegt að ríkisstjórn undir forystu VG muni heimila vegstæði um víðerni Dynjandisheiðar og um kjarrlendi Dynjandisvogs?

Er líklegt að ríkisstjórn undir forystu VG muni heimila laxeldi í Ísafjarðardjúpi og virkjun Hvalár með hliðsjón af skoðunum núverandi þingmanna flokksins og frambjóðenda hans til slíkra framkvæmda fram að þessu?

Er líklegt að ríkisstjórn undir forystu VG muni standa að framkvæmdum sem þörf er á til hringtengingar á flutningskerfi raforku á Vestfjörðum?

Kosningar eru ákveðin stefnuyfirlýsing kjósenda til fjögurra ára. Atkvæði greidd VG er stefnuyfirlýsing um að áðurnefndar framkvæmdir verði ekki að veruleika. Sú stefnuyfirlýsing er óafturkræf og ekki í samræmi við samstöðufundinn góða.

Framtíð byggðar á Vestfjörðum er nú bjartari en hún hefur verið um áratuga skeið. Við þurfum að halda áfram á leið uppbyggingar með hagsmuni fólksins í huga.

Halldór Jónsson

Höfundur er vestfirðingur búsettur á Akranesi.

 

DEILA