Viðreisn styður skosku leiðina í innanlandsflugi

Gylfi Ólafsson

Þegar rætt er um opinberan stuðning við samgöngur, er jafnan mest talað um vegsamgöngur. Vestfirðingar vita hinsvegar að flug er ekki síður mikilvægt, en þar hamlar hár kostnaður oft för.

Skoska leiðin felst í því að flug íbúa sem búsettir eru á svæðinu fá flugfargjöld niðurgreidd til helminga. Áfram munu ferðir á vegum fyrirtækja og ferðir ferðamanna vera á fullu verði. Markmiðið er að sú þjónusta sem ríkið niðurgreiðir á höfuðborgarsvæðinu, eins og leikhús og heilbrigðisþjónusta, sé ekki jafn óaðgengileg landsbyggðarfólki og hún er í dag. Einnig verði ódýrara að rækta vina- og fjölskyldutengsl.

Vinir og fjölskylda geta ráðið byggð

Slík niðurgreiðsla myndi henta íbúum á nær öllum Vestfjörðum, með ódýrara aðgengi að höfuðborgarsvæðinu í gegnum flugvellina á Ísafirði, Bíldudal og Gjögri.

 Ef litið er tíu ár aftur í tímann sést að farþegum til Ísafjarðar hefur fækkað mikið. Væntanlega má tengja þetta að hluta bættum samgöngum á landi og fækkun íbúa. Hitt er þó ljóst að það er mikilvægt að farþegafjöldi haldist hár svo tíðni flugferða geti verið að minnsta kosti sú sem hún er í dag.

Búseta í fámennum bæjum getur haft í för með sér fjarvistir frá vinum og skyldfólki. Reynslan frá Skotlandi bendir til þess að skoska leiðin auki samverustundir með vinum og fjölskyldu. Búsetuskilyrðin batna. Staðsetning og tengsl við vini og fjölskyldu eru nefnilega mikilvægir þættir í ákvörðun um búsetu.

 Viðreisn styður skosku leiðina

Á blaðamannafundi á sunnudaginn var kynnti Viðreisn áherslur sínar fyrir kosningarnar. Við höfum staðið við gefin loforð síðan í fyrra og teljum að enn þurfi að bæta í. Skoska leiðin er meðal áhersluatriða okkar. Skotið hefur verið á að kostnaðurinn sé á bilinu 6-800 milljónir, en nánari undirbúningur bíður nýrrar stjórnar. Við höfum kynnt hvernig við viljum fjármagna útgjöldin án skattahækkana eða á kostnað ábyrgrar hagstjórnar.

Gylfi Ólafsson oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

DEILA