VG stærst og Viðreisn mælist inni

Viðreisn myndi fá þrjá menn kjörna á þing ef niðurstöður kosninga yrðu í samræmi við nýja skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. VG fær mest fylgi samkvæmt könnuninni og Flokkur fólksins tapar fylgi milli kannana og myndi ekki fá kjörna menn.

Fylgi VG mælist 27 prósent sem er í takt við síðustu kannanir Fréttablaðsins og Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22 prósent og breytist lítið frá fyrri könnunum blaðsins. Miðflokkurinn mælist með tæplega 11 prósenta fylgi, Samfylkingin með rúmlega 10 prósent og Píratar mælast með slétt 10. Viðreisn bætir við sig fylgi og mælist með 5 prósenta fylgi, Flokkur fólksins með tæp 4 prósent og Björt framtíð með rúmlega 2 prósent.

Tæpar tvær vikur eru til kosninga og yrðu þetta niðurstöður þeirra myndi VG fá 19 þingmenn kjörna, Sjálfstæðisflokkurinn 15, Miðflokkurinn, Samfylkingin og Píratar myndu fá sjö menn kjörna hver flokkur. Þá myndi Framsóknarflokkurinn fá fimm menn kjörna og Viðreisn þrjá menn.

smari@bb.is

DEILA