Verð íslenskra sjávarafurða í sögulegu hámarki

Styrking á gengi krónunnar hefur þrengt töluvert mikið að rekstri íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sem eiga nær allt tekjustreymi sitt undir útflutningi á sjávarafurðum. Verð á íslenskum sjávarafurðum í erlendri mynt hefur farið hækkandi á sama tíma og hefur það mildað höggið sem gengisþróunin veldur. Þetta kemur fram í Hagsjá Landbankans.

Verðlag íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hefur haldið áfram að hækka á þessu ári og var í sumar hærra en það hefur áður mælst. Verðið náði tímabundnu hámarki í kringum áramótin 2011 og 2012. Uppfrá því tók það að lækka og náði tímabundnu lágmarki í janúar 2014 og hafði þá lækkað um 6% á tveimur árum. Frá því í janúar 2014 hefur verðið hækkað um tæplega fjórðung mælt í erlendri mynt. Skipta má útflutningi sjávarafurða í annars vegar botnfisk og hins vegar uppsjávarfisk. Botnfiskurinn hefur lengi vegið umtalsvert meira en uppsjávarfiskur en verð á botnfiski hefur hækkað töluvert á síðustu misserum og er það helsta skýringin á hækkandi verðlagi íslenskra sjávarafurða í heild sinni.

smari@bb.is

DEILA