Hátt í annað hundrað sjálfboðaliðar tóku þátt í flugslysaæfingu á Ísafjarðarflugvelli á laugardaginn og að sögn skipuleggjenda gekk flest að óskum en svona æfingar eru ætíð rýndar vel að lokum og þær eru til þess gerðar að læra af þeim. Væntanlega hefur eitthvað komið úr pokahorninu sem mátti fara betur, í það minnsta kvartaði einn sjúklingur yfir því að hafa aldrei fengið að tala við lækni og aldrei tekinn blóðþrýstingur.

„Slysið“ átti sér stað fyrir enda flugbrautarinnar og þar hafði verið komið fyrir ýmsum hlutum sem léku flugvélaparta, til að mynda þrír bílar, grunsamlegir kútar og rör. Mikið slösuðu fólki hafði verið komið fyrir ýmist í „flugvélapörtunum“ eða á flötunum í kring og létu margir sjúklingar ófriðlega enda á þeim mörgum mikil svöðusár. Klippa þurfti fjölmarga úr bílunum og flytja af mikilli varfærni úr flökunum og yfir í sjúkrabíl. Einn flugfarþegi var svo óheppinn að fljóta út í sjó á bút úr flugvélinni og mátti bíða talsverða stund eftir að vera bjargað í land og undir læknishendur, glöggt mátti heyra af hljóðunum að viðkomandi var mikið slasaður.

Mikill eldur braust út á fjórum stöðum en vaskir liðsmenn slökkviliðsins réðu niðurlögum hans.

Í flugstöðinni var bækistöð heilbrigðisstarfsfólks sem greindi og læknaði af miklum móð, eitthvað var þó um að ekki tækist að bjarga þeim sem náðu undir læknishendur.

Skipuleggjendur æfingarinnar voru afar ánægðir með viðbrögð björgunarfólks á svæðinu og kunnu vel að meta alla þá aðstoð sem hinn almenni borgari veitti sömuleiðis.

This slideshow requires JavaScript.

bryndis@bb.is

DEILA