Um gagnsæi, spillingu, traust og samvinnu

Eva Pandóra Baldursdóttir

Þegar gagnsæi og traust almennings hefur verið aukið fylgir því óhjákvæmilega aukið traust og samvinna milli ólíkra stjórnmálaflokka inni á þingi. Allir stjórnmálaflokkar ættu nefnilega að vera að vinna að sama markmiðinu: að bæta hag almennings í landinu. Við höfum ef til vill ólíka sýn á hvernig er best að standa að því en það er einmitt ástæðan af hverju það er mikilvægt að hafa breiðan, ólíkan hóp fólks á Alþingi.

Aðeins er liðið rúmlega ár síðan ég steig mín fyrstu skref í stjórnmálum og varð oddviti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi. Á sama tíma er ég einnig að heyja mína aðra kosningabaráttu. Lífið getur verið svo furðulegt stundum en fyrir ári síðan hefði mér aldrei dottið í hug að við Íslendingar værum á leiðinni inn í stjórnarkreppu sem yrði til þess að kjörtímabilið yrði stutt, enn og aftur. Segja má að hér á landi hafi eiginlega verið viðvarandi stjórnarkreppa síðan í hruninu. Eftir hrunið breyttust nefnilega stjórnmálin. Traustið hvarf. Traust milli ólíkra stjórnmálaflokka sem og traust almennings til Alþingis. Ekki var lengur hægt að einfaldlega treysta og trúa því að ráðamenn þjóðarinnar væru að vinna að hag almennings og störf stjórnmálamanna voru, því miður ekki yfir allan vafa hafin.

Þetta er helsta ástæðan af hverju ég vil bjóða fram krafta mína á Alþingi og af hverju ég geri svo undir merkjum Pírata. Helstu áherslur Pírata eru að boða gagnsæi og ábyrgð í stjórnmálum og stjórnsýslu, berjast gegn spillingu, auka beint lýðræði þegar það býst og vernda borgararéttindi og einstaklingsfrelsi. Ef stjórnmálin og stjórnsýslan væru gagnsæ og almenningur hefði aðgang að upplýsingum um hvaða ákvarðanir stjórnvöld taka og hvernig staðið er að þeim ákvörðunum myndi traust almennings til Alþingis aukast, því ákvarðanataka og aðgerðir stjórnvalda væru einfaldlega hafin yfir vafa um spillingu og frændhygli. Þetta ætti að vera fyrsta skref nýs þings: auka gagnsæi til að auka traust.

Fulltrúalýðræðið virkar mjög vel ef rétt að því er staðið. Þeir ólíku einstaklingar sem veljast inn á þing munu ef til vill aldrei allir vera sammála um einstaka málefni og því er mikilvægt að alþingismenn hafi þann kost að virða skoðanir annarra þótt þær samræmist ekki sínum eigin, taka upplýstar ákvarðanir byggðar á gögnum og vinna saman á lausnamiðaðan hátt. Skotgrafar- og rifrildispólitík er orðin löngu úrelt. Það er tími til kominn að Alþingi rísi upp úr gamla leikskóla leiknum þar sem heyrist „Ég er með bláan og þú ert með bláan og þá getum við leikið. Hann er með grænan og hún er með rauðan og þá mega þau ekki vera með.“ og segjum frekar „Ég er með gulan, þú ert með rauðan, hann er með grænan og hún er með bláan. Komum öll og búum til regnboga saman!“.

Eva Pandora Baldursdóttir

Þingmaður og oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi

DEILA