Takk fyrir traustið.

Elsa Lára Arnardóttir. Mynd: mbl.is / Ómar

Auka kjördæmisþing Framsóknar í Norðvesturkjördæmi fór fram fyrir stuttu síðan. Þar gaf ég ekki kost á mér til áframhaldandi starfa á þingi, að minnsta kosti ekki á næsta kjörtímabili. Þegar ákvörðun sem þessi er tekin, þá er vel við hæfi að skrifa nokkur orð niður á blað og þakka fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt í störfum mínum sem þingmaður.

Þingmannsstarfið hefur verið afar lærdómsríkur tími og ég er þakklát fyrir svo margt. Fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt, fyrir vináttusambönd milli mín og þingmanna í hinum ýmsu flokkum og fyrir þann skóla sem starfið hefur verið.

Ég er ekki sammála þeim sem segja að þingmenn séu eingöngu stimpilpúði fyrir ráðuneytin. Þingmenn geta haft áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku um strauma og stefnur ríkisstjórna. Þetta snýst um að undirbúa sig vel, mæta vel og hafa þannig áhrif.

Í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins fékk ég sæti í Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála þar sem grunnur var lagður að nýju húsnæðiskerfi. Ég náði í gegn mikilvægum breytingartillögum í almannatryggingakerfinu, í barnaverndarmálum, húsnæðismálunum og barðist gegn matarskatti Sjálfstæðismanna, svo að eitthvað sé nefnt. Á síðasta ári samþykktu allir þingmenn tillögu mína um stefnumótun í heilbrigðiskerfinu og sú vinna var komin á fullt innan heilbrigðisráðuneytisins og mikilvægt er að sú vinna verði kláruð á nýju kjörtímabili. Á þessu þingi voru forgangsmálin mín, húsnæðismál og afnám verðtryggingar. Þau mál voru bæði tilbúin þegar það slitnaði upp úr þinginu. Auk þessa vann stór hluti þingmannahóps Norðvesturkjördæmis að lagasetningu um Teigsskóg. Ekkert þessara mála komst á dagskrá þingsins fyrir þinglok og er það miður.

Ákvörðunin um að gefa ekki kost á mér að þessu sinni, var ekki auðveld, sérstaklega ekki þar sem ég fékk fjölda áskorana um að gefa kost á mér til áframhaldandi starfa. Ég finn þó að ákvörðunin er rétt við þessar aðstæður. Ánægjulegt er að fjöldi frambærilegra einstaklinga hefur gefið kost á sér á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi og kosið verður um listann á tvöföldu kjördæmisþingi sem fram fer næsta sunnudag. Ég óska þeim öllum góðs gengis.

Næstu vikur verða notaðar í tíma með fjölskyldu og vinum. Þeim sem hafa verið á hliðarlínunni undanfarin ár og stutt mig til allra verka.

Ég er sannur Framsóknarmaður og trúi á gildi Framsóknarflokksins. Þess vegna ætla ég að halda áfram að vinna fyrir flokkinn, þó á öðrum vettvangi, að minnsta kosti um sinn fái ég brautargengi til þess.

Ég þakka ykkur enn og aftur það mikla traust sem þið hafið sýnt mér. Það er ómetanlegt.

Elsa Lára Arnardóttir

– fráfarandi þingmaður Framsóknarflokksins

DEILA