Sjálfstæðisflokkurinn stærstur – VG gefur eftir

Sjálfstæðisflokkurinn yrði stærsti flokkurinn ef kosið væri nú. Hann fengi rúm 24 prósent atkvæða. Vinstri græn yrðu næststærsti flokkurinn með rúm 19 prósent atkvæða. Þetta kemur fram í í nýrri könnun Fréttablaðsins í dag. Samfylkingin fengi 14,3 prósent. Miðflokkurinn er með tæp 10 prósent og Píratar með rúm 9 prósent. Þá er Viðreisn með tæp 8 prósent og Framsóknarflokkurinn með rúm 6 prósent. Flokkur fólksins mælist svo með rúmlega 4 prósenta fylgi og Björt framtíð með tæplega 2 prósent.

Ef það á að gera tilraun til að útnefna „sigurvegara kosninganna“ verði útkoman á þennan veg er augljósast að benda á Samfylkingu og Miðflokkinn. Samfylkingin tæplega þrefaldar fylgi sitt frá síðustu kosningum og Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson afgreiðir sínar fyrstu kosningar með miklum krafti. Og ef það þarf að benda á „tapara kosninganna“ blasir Björt framtíð við en flokkurinn þurrkast út og Framsóknarflokkurinn tapar 5,5 prósentustigum frá síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur en fylgi hans er sögulega lágt og flokkurinn tapar rúmum fjórum prósentustigum milli kosninga. Þrátt fyrir þriggja prósenta fylgisaukningu VG frá síðustu kosningum vonaðist fólk þar á bær eftir meira fylgi í ljósi skoðanakannana síðustu vikur. Viðreisn tapar um þremur prósentustigum en kemur mun betur út en skoðanakannanir hafa gefið til kynna til þessa.

smari@bb.is

DEILA