Samningur um starfsendurhæfingu

Þorsteinn Víglundsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir

Formlegur samningur um þjónustu VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs við einstaklinga sem standa utan vinnumarkaðar var undirritaður í velferðarráðuneytinu fyrir skömmu. Samningurinn byggist á ýtarlegri kröfulýsingu fyrir starfsendurhæfingarsjóði.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnar VIRK undirrituðu samninginn sem gerður er í samræmi við lög um rétt þeirra til starfsendurhæfingar sem standa utan vinnumarkaðar. Er þar meðal annars átt við þá sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri á grundvelli laga um almannatryggingar og þá sem fá fjárhagsaðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Með samningnum er kveðið skýrt á um að þeir sem standa utan vinnumarkaðar og uppfylla skilyrði laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu eigi rétt til þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á sama hátt og þeir sem eru þátttakendur á vinnumarkaði. Markmiðið er að tryggja þeim sem eru með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa og standa utan vinnumarkaðar, atvinnutengda starfsendurhæfingu þannig að sem flestir eigi þess kost að vera virkir á vinnumarkaði.

smari@bb.is

DEILA