Raforkuöryggi og hringtenging

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Það eru nokkur svæði á landinu sem ekki eru tengd hringtengingu og mega því búa við skert raforkuöryggi. Í nútímasamfélagi er það ekki ásættanlegt. Það felur ekki einungis í sér óþægindi fyrir almenning heldur eru líka mörg fyrirtæki og stofnanir sem þola ekki rafmagnsleysi þar sem viðkvæmur búnaður er í hættu auk vinnutaps.

Á Vestfjörðum mega íbúar búa við þetta öryggisleysi allt árið um kring. Þrátt fyrir að varaaflstöð sem byggð var í Bolungarvík fyrir nokkrum árum þá hefur hún ekki getað tryggt öryggi nema að nokkru leiti. Fyrir utan það að það er ekki ásættanlegt að við skulum nýta okkur jarðefnaeldsneyti sem orkugjafa í eins miklu magni og raunin er.

Raforkulögin úrelt
Raforkulögin sem nú er unnið eftir eru úrelt því aðaláherslan í þeim er að tengja stórnotendur og stóriðjur inn á raforkukerfið en á meðan hefur það hefur setið á hakanum að byggja upp dreifikerfið um allt land, meðal annars á Vestfjörðum. Þessi úreltu lög hafa líka sett Landsneti þrengri skorður en ella. Æskilegt væri að ríkið tæki yfir Landsnet sem er opinbert hlutafélag eins og m.a. forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hefur bent á. Mér finnst það sjálfsagt að ríkið leggi til fjármuni til þess að laga raforkuinnviði eins og til dæmis á Vestfjörðum, okkur finnst ekkert tiltökumál að leggja fjárhæðir frá ríkinu í annars konar innviði, vegi, flugvelli, hafnir, ljósleiðara osfrv. Af hverju ekki í raforkukerfið?

Hringtenging rafmangs á Vestfjörðum verður því að vera í forgangi.

Horft er til nokkurra nýrra virkjanakosta til að auka raforkuframleiðslu á Vestfjörðum enda er framleiðsla inna fjórðungsins ekki nema helmingur af raforkuþörf  svæðisins. Þær virkjanir eru þegar á teikniborðinu og mjög líklegt er að einhverjar þeirra verða að veruleika að loknu lögbundnu ferli.

Það sem við í Framsókn leggjum hinsvegar aðaláherslu á er hringtengingin um Djúp. Ásættanlegt raforkuöryggi á Vestfjörðum næst ekki fyrr en við getum fengið rafmagnið úr tveimur áttum og fyrir því þarf að berjast, að leggja línu um Djúp. Þessi krafa hefur komið margoft fram bæði af hálfu sveitarstjórna og íbúa. Því var ég hissa á að lesa pistil hér á bb.is frá orkumálaráðherra og þingmanni Sjáflstæðisflokksins í kjördæminu sem tók ekki dýpra í árina en það að segja að hringtengingin væri áfram möguleiki og við ættum að vega og meta hana þegar að því kæmi.

Mér finnst það ekki hlutverk stjórnmálamanna að bíða og sjá hvort úrelt raforkukerfi leyfi hringtengingu Vestfjarða að verða að veruleika, heldur miklu fremur verðum við að taka pólitíska forystu að koma slíkri tengingu á dagskrá og það sem fyrst!

Halla Signý Kristjánsdóttir, 2. sæti Framsókn í Norðvesturkjördæmi og stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða.

DEILA