Nýtt mælitæki á sviði jafnréttismála

Frá vinstri: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, Þorsteinn Víglundson ráðherra, Rakel Sveinsdóttir formaður FKA og Guðrún Ragnarsdóttir verkefnastjóri Jafnvægisvogarinnar.

Félags- og jafnréttismálaráðherra og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu undirrituðu í gær samstarfssamning um þróun Jafnvægisvogar til að hafa eftirlit með stöðu og þróun kynjajafnvægis í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Félag kvenna í atvinnulífi mun leiða verkefnið og þróa vogina í samstarfi við stjórnvöld og hagsmunaaðila í íslensku atvinnulífi. Meginmarkmið verkefnisins er meðal annars að:

  • Samræma og safna saman tölulegar upplýsingar um hlut kvenna og karla í stjórnum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja.
  • Standa fyrir viðburðum og fræðslu um mikilvægi fjölbreytileika í stjórnum og stjórnendateymum.
  • Veita fyrirtækjum viðurkenningu árlega, sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar.

Samstarfssamningurinn er til eins árs og felur í sér fimm milljóna króna fjárstuðning til verkefnisins með möguleika á framlengingu. Undirbúningur að gerð samningsins hófst snemma síðastliðið sumar en til grundvallar liggur 5 ára aðgerðaáætlun stjórnar FKA, sem ætlunin er að móta enn betur með aðkomu fleiri aðila. Aðild að FKA eiga nú ríflega eitt þúsund leiðtogakonur í öllum geirum atvinnulífsins.

smari@bb.is

DEILA