Nú gerum við betur

Kæri kjósandi

Nú er komið að því að byggja upp og styðja við. Um land allt sjáum við tækifærin til að gera betur, en um leið þurfum við stefnubreytingu og breytta forgangsröðun í þágu byggðanna. Innviðir og hryggjarstykki samfélaganna eru vanrækt – vegirnir, hafnirnar, skólarnir, sjúkrahúsin og heilsugæslurnar. Misskiptingunni verður að ljúka og tækifærið til þess er núna. Með því að færa fólki um allt land tækifæri til menntunar og atvinnuuppbyggingar jöfnum við stöðu fólks. Það er hægt að jafna lífskjörin í landinu með ábyrgum og skynsömun hætti án þess að skattleggja almennt launafólk.

Vid erum rík af auðlindum lands og sjávar. Fjölbreytt náttúra, saga og menning eru hin sterku einkenni landshlutans. Tækifærin okkar í Norðvesturkjördæmi blasa hvarvetna við og felast ekki síst í unga fólkinu sem þyrstir í menntun og störf í heimabyggð, því hér líður þeim vel. Hér viljum við gefa þeim tækifæri til að hlúa að foreldrum sínum og ala upp börnin sín á grundvelli jafnra tækifæra, með lengra fæðingarorlofi og húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Hlúum að nýliðum í landbúnaði og sjávarútvegi og gerum breytingar á sjávarútvegskerfinu sem byggðarlög á landsbyggðinni munar um. Styðjum við göfugt starf bænda, sem eru gæslumenn landsins, byggðarinnar og náttúrunnar og holla matvælaframleiðslu til sjávar og sveita. Umhverfismál eru efnahags- og atvinnumál. Náttúran er gjöful í kjördæminu okkar, en gleymum því ekki að við höfum hana aðeins að láni frá næstu kynslóð og því ber okkur að stíga varlega til jarðar.

Í kosningum nú sem endranær er valdið sett í hendur kjósenda. Það er einlæg von okkar sem sækjumst eftir þínu umboði að þú takir því valdi fagnandi, mætir á kjörstað og setjir X við þann kost sem þú telur bestan fyrir samfélagið okkar, náttúruna og framtíðina.

Lilja Rafney Magnúsdóttir
Bjarni Jónsson
Rúnar Gíslason
Dagrún Jónsdóttir

Höfundar skipa fjögur efstu sæti lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs

Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

DEILA