Mótmælir hugmyndum um þvingaðar sameiningar

Bæjarráð Bolungarvíkur mótmælir hugmyndum um lögfesta lágmarkafjölda íbúa sveitarfélaga. Í nýlegri skýrslu verkefnastjórnar innanríkisráðherra um stöðu og framtíð sveitarfélaga er lagt til að lágmarkfjöldi íbúa sveitarfélega verði 1.000 íbúar árið 2026. Verkefnastjórnin leggur til að þetta verði gert í skrefum þannig að árið 2020 verði lágmarkíbúafjöldi 250, 500 árið 2022 og svo 1.000 árið 2026.

Jafnframt mótmælir bæjarráð Bolugarvíkurkaupstaðar harðlega þeim lýðræðishalla sem kemur fram í niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar sem felst í þeirri tillögu að íbúum mun ekki gefast kostur á að kjósa um sameiningartillögur. „Það er ljóst að í tillögum verkefnisstjórnarinnar er ekki tekið tillit til margbreytilegra aðstæðna minni sveitarfélaga í fjárhagslegu, félagslegu og landfræðilegu tilliti,“ segir í bókun bæjarráðs og bent á að mikilvægt er að forsenda sameininga sveitarfélaga liggi í frumkvæði íbúana sjálfra og sé unnið á þeirra forsendum. Að mati bæjarráðs Bolungarvíkur verður það ekki til heilla fyrir samfélög ef minni sveitarfélög verða sameinuð stærri sveitarfélögum gegn þeirra vilja.

smari@bb.is

DEILA