Léttir fyrir hreppsbúa

Verslunin í Norðurfirði. Ágreiningur um lögheimilisskráningu kom upp í Árneshreppi stuttu fyrir kosningar í vor. Myndin tengist fréttinni ekki.

Verslunin á Norðurfirði í Árneshreppi opnar á ný á morgun en engin verslun hefur verið í hreppnum frá því að útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar var lokað í september. Nýir verslunarstjórar eru hjónin Ólafur Valsson og Sif Konráðsdóttir og komu þau með búslóð sína í hreppinn í gær. Á morgun kemur flutningabíll frá Strandafrakt með fyrstu vörur í nýja verslun. Á vef Litla hjalla segir ritstjórinn Jón Guðbjörn Guðjónsson opnunar verslunarinnar sé mikill léttir fyrir íbúa hreppsins.

Í fjarveru Evu Sigurbjörnsdóttur, oddvita Árneshrepps, var það fyrrnefndur Jón Guðbjörn sem tók á móti kaupmannshjónunum og bauð þau velkomin í hreppinn og afhenti lykla að verslunarhúsinu og að íbúð sem Ólafur og Sif fá til afnota, en íbúðin er í sömu byggingu og verslunin er í, á efstu hæð kaupfélagsbygginganna.

DEILA